133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:52]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan hefur reynt að kappkosta það í umræðunni að telja fólki trú um hve samstiga hún hafi verið í fjárlagagerðinni almennt. Ég hef bent á að í síðustu fjárlagagerð var stjórnarandstaðan út og suður í málflutningi sínum. Meira að segja þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fjallað um framlög til framhaldsskóla þá komu breytingartillögur þar að lútandi einungis frá þingmönnum Samfylkingar og Frjálslynda flokksins en ekki frá Vinstri grænum. Þegar maður reynir að átta sig á þessum tillögum frá stjórnarandstöðunni, útgjaldatillögum frá Vinstri grænum upp á 2,5 milljarða kr. Samfylkingin og Frjálslyndir lögðu til aukningu upp á 1,8 milljarða kr.

Svo er fjöldinn allur af fallegum breytingartillögum upp á um 2 milljarða kr. frá stjórnarandstöðunni og virðist tilviljun hverjir leggja fram hvaða tillögu. Það er því mjög erfitt að henda reiður á því hvað stjórnarandstaðan hefur viljað í þessum efnum, endalaus yfirboð, loforð um útgjöld og engar raunverulegar áætlanir um tekjur á móti.

Nú verður spennandi að sjá hvort stjórnarandstaðan nær saman um útgjaldatillögur vegna fjárlaga ársins 2007. Stjórnarandstaðan var út og suður hvað það varðaði. Það er eðlilegt að við köllum eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni í þessum efnum en hv. þingmenn komi ekki upp hvað eftir annað með rakalausan málflutning þar sem málflutningur stjórnarliða er gagnrýndur. En síðan leggja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ekkert af mörkum. Þeir tala um að koma í veg fyrir þensluna, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, en leggja til fleiri milljarða útgjaldaaukningu í fjárlagagerðinni í aukningu. Þau tala um þensluna og skilja ekkert í þessu.