133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:56]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verður hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson að vera samkvæmur sjálfum sér. Ég man ekki eftir því að stjórnarandstaðan hafi sett sig á móti útgjaldatillögum ríkisstjórnarinnar heilt yfir litið, heldur hefur hún komið með viðbótartillögur og eintóm yfirboð.

Af því að hv. þingmaður biður mig um að rifja upp hvaða tillögur það voru sem m.a. Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn lögðu til í fyrra þá var það m.a. hækkun á tryggingagjaldi, sem átti að skila auknum tekjum í ríkissjóð, tryggingagjaldi sem mundi m.a. bitna á fyrirtækjum á landsbyggðinni, t.d. á Vestfjörðum. Það var innlegg stjórnarandstöðunnar, að hækka skatta á fyrirtækin, (Gripið fram í.) á fiskvinnslufyrirtæki sem börðust í bökkum. (Gripið fram í.) Það var algjörlega óábyrgur málflutningur og eintóm yfirboð, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Ég sé að hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni er brugðið við þessar tölur enda er stjórnarandstaðan búin að gleyma hvað hún lagði til í fjárlagavinnunni fyrir árið 2006.