133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.

288. mál
[13:18]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að eyða þyrfti réttaróvissu útgerðarmanna vegna veiðiheimilda sem þeir hefðu keypt. Nú spyr ég: Er hæstv. ráðherra ekki sammála því sem stendur í stjórnarsáttmálanum, að það eigi að setja í stjórnarskrána ákvæði um að sjávarauðlindirnar séu þjóðareign? Er þá hæstv. forsætisráðherra ekki sammála því að þjóðareign sé eign þjóðarinnar sem Alþingi og ríkisstjórn eigi að gæta fyrir hönd þjóðarinnar? Erum við þá ekki að tala um eignir sem eigi að gæta með sama hætti fyrir hönd þjóðarinnar og menn gæta sinna eigin eigna?

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála þessu ákvæði og hvort nokkuð hafi breyst hvað það varðar. Verður þetta ákvæði ekki inni í breytingartillögum þeirrar nefndar sem nú fjallar um stjórnarskrána?