133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:28]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Því miður berast slæmar fréttir og ljótar frá fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa við Kúbu. Eins og hæstv. utanríkisráðherra gat um áðan þá hafa þessar fangabúðir stórlega dregið úr trúverðugleika Bandaríkja Norður-Ameríku á alþjóðlegum vettvangi.

Nú hefur hæstv. ráðherra sýnt það í störfum sínum að hún er skelegg mjög og ég vil skora á hana í því sambandi að taka málið upp við bandarísk yfirvöld, hvort heldur bandaríska sendiherrann hér á landi eða á öðrum vettvangi, og fordæma rekstur þessara fangabúða á Kúbu. Þarna eru mannréttindi brotin á hverjum einasta degi þar sem mönnum er haldið án dóms og laga og án sakarefna svo árum skiptir. Þetta er langt fyrir neðan allt velsæmi og miklu meira en við getum sætt okkur við, hæstv. forseti.