133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Framferði Bandaríkjamanna í Guantanamo er áfall fyrir heimsbyggðina vegna þess að þetta er öflugasta ríki heimsins sem bregst við hryðjuverkum sem unnin hafa verið þar með hryðjuverkum á alþjóðasamningum, með því að ganga gegn þeim samningum sem ríki heimsins hafa komið sér saman um, brjóta þá í bak og fyrir, koma sér undan bandarískum lögum, halda mönnum föngnum sannarlega án þess að á þá hafi verið bornar sakir eða þeim gefinn kostur á að verja sig og, sem sannarlega eru dæmi um, hafa svo verið saklausir þegar upp var staðið.

Það er ekki nokkur leið önnur, virðulegi forseti, en að fordæma þetta mjög harðlega. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns hvað það varðar.