133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ljóst að stórt verkefni bíður okkar, að finna not fyrir þá aðstöðu og mannvirki sem losna nú á Keflavíkurflugvelli og færast yfir til borgaralegra nota. Eitt af því sem menn hafa að sjálfsögðu horft mjög á er ýmiss konar flugtengd starfsemi, það liggur að mörgu leyti beint við að líta til slíkra þátta. Þar af leiðandi er ekki nema eðlilegt að menn velti fyrir sér a.m.k. flugrekstrarþætti Landhelgisgæslunnar í þeim efnum eða starfseminni í heild sinni.

Það er náttúrlega fleira sem þarf að gerast og er að gerast samtímis, þ.e. sú endurskipulagning á starfsemi Landhelgisgæslunnar og efling björgunarstarfseminnar sem er bráðnauðsynleg og verið er að vinna að, m.a. með fjölgun þyrlna. Þá þarf náttúrlega að horfa til fleira en bara húsakosts, það þarf að horfa til verkefnisins sem er björgunarverkefnin sjálf og aðstæður í þeim efnum. Ég minni á í því sambandi að það hefur lengi verið krafa íbúa fyrir norðan og austan land og sjómanna sem sækja sjó á því svæði og reyndar hvar sem er að a.m.k. yfir vetrartímann verði staðsettar þyrlur norðan hálendisins, af augljósum ástæðum. Þess vegna hlýtur að þurfa að horfa til allra þessara þátta þegar starfsemi Landhelgisgæslunnar verður endurskipulögð.

Ég hef reyndar lengi velt fyrir mér hvers vegna skipareksturinn er endilega staðsettur í Reykjavík. Það er ekki starfsemi sem liggur beint við að hafa inni við botn Faxaflóans. Af hverju er ekki einmitt skipaútgerðin frá einhverri góðri höfn úti við ströndina, á Suðurnesjum, í Vestmannaeyjum, á Akureyri, Ísafirði eða einhverjum slíkum stað, eða dreift á þessar slóðir? Ég held að miðsækniáráttan hafi haft fullmikil völd í þessum efnum.

Varðandi flugrekstrarþáttinn aftur verða náttúrlega ekki teknar neinar skyndiákvarðanir í þeim efnum. Það verður að hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar í huga eins og þeir eru um þessar mundir og búseta þeirra. En ég held að það sé hyggilegt (Forseti hringir.) að framtíðarstefnan skeri úr um það hvar þessari starfsemi er ætlaður staður, eða höfuðstöðvum hennar, og það er kannski aðalatriðið að menn komi sér niður á eitthvað í þeim efnum.