133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

öndunarvélaþjónusta við MND-sjúklinga.

109. mál
[18:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna svörum ráðherra um öndunarvélaþjónustu fyrir MND-sjúklinga. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að öndunarvélaþjónusta hefur einkum verið notuð fyrir sjúklinga með kæfisvefn á vegum Landspítalans en ráðherra lýsir því nú yfir að hún sé að skoða málið. Öndunarvélaþjónusta og sú skoðun mun þá væntanlega taka til MND-sjúklinga, sjúklinga með framsækna taugasjúkdóma, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, og svo sjúklinga sem orðið hafa fyrir slysum.

Það er verið að skoða þessi mál á vegum heilbrigðisyfirvalda og félagsmálayfirvalda og ég vona að hæstv. ráðherrar heilbrigðismála og félagsmála vinni hratt og örugglega í þeim efnum vegna þess að það er mikilvægt að menn láti ekki hugsanlegan ágreining um það hver eigi að gera hvað, eða hvað eigi að vistast í hvoru ráðuneyti, verða til þess að þessu seinki um of.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hún teldi eðlilegt að bjóða upp á öndunarvélaþjónustu. Ég tel mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að vilji hæstv. ráðherra stendur til þessa og ég fagna því sérstaklega ef þessi fyrirspurn mín hefur orðið til þess að hreyfa eitthvað við málinu. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þessum efnum og mun standa að baki henni í þessum málum eins og öðrum. Ég vona jafnframt að aðrir hv. þingmenn á hinu háa Alþingi verði til þess að veita þessu máli stuðning.