133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:25]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara hér í eitthvert lestrarpróf hjá hv. þingmanni.

Hitt er annað mál, og það vekur athygli, og ég bið forseta að veita því alveg sérstaka athygli, hvernig hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, reynir hér að firra sig þeirri ábyrgð að hafa sem borgarstjóri í Reykjavíkurborg tekið þá ábyrgð og greitt því atkvæði að Reykjavíkurborg ábyrgðist framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Hefði þáverandi borgarstjóri í Reykjavík neitað því hefði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir getað stöðvað þær framkvæmdir. Það þýðir ekki fyrir virðulegan formann Samfylkingarinnar að koma hér upp núna eins og hvítþveginn engill án ábyrgðar. Hv. þingmaður ber ábyrgð á þeim framkvæmdum eins og aðrir þeir sem studdu þær framkvæmdir, m.a. hér í þingsal.

Hafi hv. þingmaður ekki tekið eftir því, eða hafi hv. þingmaður gleymt því, studdi drjúgur hluti af þingflokki Samfylkingarinnar þær framkvæmdir með atkvæðagreiðslu hér á hv. Alþingi. Ég tek það enn fram að ég er sama sinnis og sá hluti þingflokks Samfylkingarinnar en vera kann að að nú hafi sú afstaða Samfylkingarinnar breyst í þessu máli eins og öðrum.

Ég vil líka vekja athygli hv. þingmanns á því að það er ekki bara á þessu sviði sem við höfum unnið, Íslendingar, heldur höfum við líka verið í forustu hvað varðar tilraunir með vetnisvæðingu. Þar höfum við vakið verðskuldaða athygli og erum leiðandi á því sviði. Ég tel það afar merkilegt framlag okkar til alþjóðlegra umhverfismála.