133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal kom í lokaorðum ræðu sinnar inn á skýrslu, dómsdagsspá eina mikla, sem nýlega kom út og fyrir sjónir almennings. Ég heyrði í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hún vitnar einnig í þessa skýrslu og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Í nýlegri skýrslu sem birt var í þekktu vísindariti er gefið í skyn að allur fiskur kunni að hverfa úr heimshöfunum innan 50 ára verði ekki þegar í stað gripið til víðtæks fiskveiðibanns.“

Ég kem hér upp, virðulegi forseti, til að vekja athygli á því að erlendir fjölmiðlar, þó að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki gert það, hafa flett allrækilega ofan af þessari skýrslu. Sýnt hefur verið fram á að þessi skýrsla er mjög vafasöm í alla staði og ekki mikið að marka það sem í henni stendur. Ég tel að það sé töluvert mikill ábyrgðarhluti að utanríkisráðherra Íslands komi hér í ræðustól í dag og vitni í þetta plagg sem sýnt hefur verið fram á að byggt er á ansi hæpnum grunni. Það bætir svo ekki úr skák að hv. formaður utanríkismálanefndar Alþingis skuli sömuleiðis gera það.

Um leið heyrði ég að hv. þm. Halldór Blöndal nefndi það að Íslendingar sætu undir lofsorðum vegna fiskveiðistjórnarkerfis síns. Því miður verð ég að segja að þegar rýnt er nánar í það — ég hef nú ekki tíma til að fara út í það hér — þá hefur það ekki skilað þeim árangri sem vonir stóðu til. Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal viti allt um það, hann sat á þingi þegar fiskveiðistjórnarlögin voru sett. Hann veit mætavel hvaða væntingar voru gerðar til kvótakerfisins á sínum tíma. Ég hygg að hann viti það líka mætavel innst inni að það hefur því miður ekki staðist væntingar.