133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

niðurgreiðsla á raforku til húshitunar.

[15:06]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þann 1. janúar árið 2005 voru gerðar umtalsverðar breytingar á forsendum í rekstri raforkufyrirtækja vegna nýrra raforkulaga. Eins og allir vita fólu þessi lög í sér aðskilnað dreifingar og orkusölu hjá orkufyrirtækjunum. Það var ljóst frá upphafi að húshitunarkostnaður mundi hækka töluvert nema til kæmu auknar niðurgreiðslur. Virðulegi forseti. Þetta eru ekki orð frá mér, heldur tekið upp úr skýrslu Orkustofnunar til iðnaðarráðuneytisins. Örlítið var átt við þetta og komið til móts við það á síðustu fjárlögum þar sem 100 millj. var bætt í niðurgreiðslu á húshitun en niðurgreiðsla á dreifingu raforku í dreifbýli var áfram 230 millj. kr. og lækkar reyndar nú í frumvarpi til fjárlaga um 25 millj. kr. frá þessum tíma.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að íbúar í dreifbýli, þar með taldir allir bændur, hafa fengið svakalega hækkun á raforkureikningum sínum frá því að þetta var gert. Það er ljóst, eins og segir í skýrslum Orkustofnunar, að orkuverð til húshitunar hefur hækkað en önnur not hafa lækkað. Samt sem áður er heildarniðurstaðan hjá fólki í dreifbýli og, eins og ég segi, hjá bændum sú að um stórhækkun er að ræða.

Vafalaust hafa allir þingmenn fengið að heyra þetta frá fólki á þessum stöðum. Ég hef dæmi sem fólk hefur sent mér um 45 og upp í 65% hækkun á raforkureikningum til sveita vegna þessa. Því verð ég nú, virðulegi forseti, með tilliti til þess að við erum að fara að ræða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár á fimmtudaginn að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins hvort vænta megi tillagna frá hæstv. ríkisstjórn til að auka þessar niðurgreiðslur og koma til móts við það fólk í dreifbýli sem hefur fengið þessar svakalegu raforkuhækkanir vegna breytinga á raforkulögunum.