133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Orkustofnun.

367. mál
[21:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér eru lagðar til breytingar sem eru ekki alveg skýrar þótt maður lesi frumvarpið spjaldanna á milli. Það stendur til, eins og kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra, að breyta starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar og færa yfir til Íslenskra orkurannsókna en hins vegar eigi að skilja vatnafarsrannsóknir hins opinbera eftir og þær eigi áfram að vera á ábyrgð Orkustofnunar svo sem verið hefur. Til marks um hve hér er um óljós áform að ræða þá segir í umsögn fjármálaráðuneytis, sem er fylgiskjal með þessu frumvarpi, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að vatnamælingar Orkustofnunar verði færðar undir Íslenskar orkurannsóknir en Orkustofnun mun þó áfram bera ábyrgð á vatnamælingum.“

Það á sem sagt að færa vatnamælingarnar undir Íslenskar orkurannsóknir en Orkustofnun mun áfram bera ábyrgð á vatnamælingum. Eitthvað hefur kannski skolast til hjá fjárlagaskrifstofunni en það er a.m.k. óljóst á hvern hátt vatnamælingarnar verða færðar til á milli stofnana en vatnafarsrannsóknirnar séu áfram undir hatti Orkustofnunar. Hæstv. ráðherra skýrði ekki á hvern hátt hann sæi þennan aðskilnað verða að veruleika.

Við sem erum í þessum sal vitum að það er ákveðin tilhneiging hjá ríkisstjórninni, sem aðhyllist markaðsvæðingu og háeffun í afar ríkum mæli, að háeffa opinberar rannsóknastofnanir. Skemmst er að minnast háeffunar Matvælarannsókna. Við erum nú ekki búin að bíta úr nálinni með þá framkvæmd og við vitum svo sem ekki, þótt fyrstu skref Íslenskra orkurannsókna hafi tekist og þar virðist ganga vel eins og sakir standa, hversu farsæl skref ríkisstjórnarinnar eru í þessa veru.

Ef það er, eins og segir í þessu frumvarpi, ætlunin að Íslenskum orkurannsóknum verði falin í náinni framtíð aukin verkefni á sviði umhverfisrannsókna tel ég fulla ástæðu til að hæstv. ráðherra skýri mál sitt frekar. Umhverfisrannsóknir eru ansi vítt hugtak. Þær hafa samkvæmt mínum skilningi fyrst og fremst farið fram á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sú stofnun heyrir undir umhverfisráðherra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum iðulega átalið iðnaðarráðherra — hver svo sem gegnir því embætti þá stundina — fyrir að seilast í ríkari mæli inn á vettvang umhverfisráðuneytisins, inn á vettvang rannsóknastofnana umhverfisráðuneytisins. Mér sýnist að hér geti verið til staðar tilhneiging í nákvæmlega þá átt. Ég vara við þeirri tilhneigingu. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra tali skýrt við 1. umr. og við fáum að heyra á hvern hátt þessi aðskilnaður getur mögulega átt sér stað og hvaða umhverfisrannsóknir á í nánustu framtíð að fela Íslenskum orkurannsóknum.

Mér finnst líka að við þurfum að heyra hvaða stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni hæstv. ráðherra telur að fari í náinni framtíð í auknum mæli til Orkustofnunar. Á hann þá t.d. við verkefni sem talað er um í tillögum auðlindanefndar í nýlegri skýrslu. Það er ekki ólíklegt að hæstv. ráðherra eigi við þau en þá þarf hann að tala skýrt í þeim efnum. Hér ber allt að sama brunni. Stefna ríkisstjórnarinnar í háeffunum og markaðsvæðingu er svo loðin og svo óljós að fólk sem er vel að sér í þessum málum á erfitt með að skilja hvað menn eru að fara, hvað þá fólkið úti á akrinum, sem vinnur hjá þeim stofnunum sem um ræðir eða fólk sem hefur áhugans vegna viljað fylgjast með þeim umræðum sem farið hafa fram í dag. Ég er ekki viss um að margir geri sér ljósa grein fyrir því hvert Framsóknarflokkurinn stefnir í þessum efnum.

Við sem hér höfum verið að andæfa í umræðunni höfum haldið því fram að þráhyggja einkavæðingar svífi þar yfir vötnum og menn séu svo illa haldnir af henni að þeir geti varla á heilum sér tekið öðruvísi en að háeffa og undirbúa einkavæðingu á sameiginlegum eigum okkar, helst í orkugeiranum auðvitað. Mér finnst þeirrar tilhneigingar gæta í svo ríkum mæli að ástæða sé til að vara þjóðina við þessari vegferð. Við höfum sagt að hinn leiðitami Framsóknarflokkur láti markaðsvæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins teyma sig. Maður hefur jafnvel stundum á tilfinningunni að Framsóknarflokkurinn sé farinn fram úr Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum.

Mig langar að gera eina athugasemd við orðanotkun í greinargerð með þessu frumvarpi, virðulegi forseti. Í 2. tölulið í athugasemdum við lagafrumvarpið segir, neðarlega á bls. 2:

„Þá hefur það skipt máli að rekstrarfyrirkomulag Íslenskra orkurannsókna og jafnframt núverandi vatnamælingaeiningar Orkustofnunar er með þeim hætti að reksturinn er sjálfbær.“ — Það er væntanlega í þeirri merkingu að reksturinn standi undir sér því næsta setning er svohljóðandi: „Ekki er veitt fé beint á fjárlögum til þessarar starfsemi, en Orkustofnun gerir samninga um verkefni fyrir hönd ríkisins um viðkomandi orkurannsóknir.“

Ég vil koma þeirri ábendingu til iðnaðarráðuneytisins og hæstv. iðnaðarráðherra að nota ekki hugtakið „sjálfbær“ með þessum hætti. Við höfum reynt að vinna jarðveg fyrir hugtakið „sjálfbær þróun“ í alveg sérstakri merkingu sem ég held að hæstv. iðnaðarráðherra væri hollt að tileinka sér. Það er langt í frá að það hugtak eigi eitthvað skylt við það að vera sjálfbær í merkingunni að standa undir sér. Ég vara við því, á meðan verið er að reyna að vinna sess þessu hugtaki um sjálfbæra þróun, að þá sé verið að rugla þjóðina með því að nota hugtakið „sjálfbær“ í þeirri merkingu að eitthvað standi undir sér. Ég kem þessari ábendingu til skila til iðnaðarráðuneytisins. Ég tel mikilvægt að við þingmenn skiljum eða temjum okkur rétta notkun þessara hugtaka. Öðruvísi er ekki hægt að ætlast til að þjóðin skilji það sem við erum að segja.

Varðandi 3. töluliðinn í athugasemdum með frumvarpinu þá koma þar fram nokkuð alvarlegar upplýsingar. Ég deili sannarlega áhyggjum hæstv. ráðherra í þeim efnum en þar kemur fram að Orkustofnun hafi gengið misvel að afla ýmissa gagna sem nauðsynleg eru til að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu. Þar eru sérstaklega tiltekin störf er varða það að safna gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda. Það kemur fram í textanum og í máli hæstv. ráðherra að það væri ekki síst vegna þess að ýmis fyrirtæki hefðu orðið æ tregari til að láta slík gögn af hendi og Orkustofnun hafi ekki haft úrræði til að krefjast gagna sem gerðar eru tillögur um auknar heimildir fyrir.

Mér finnst það afar ámælisvert og alvarlegt ef fyrirtæki sem losa mengandi lofttegundir út í lofthjúp jarðar á Íslandi, þar sem menn státa af hreinu umhverfi og því að við séum umhverfismeðvituð. Það er slæmt ef fyrirtæki á sviði iðnaðar, skyldi maður ætla, sitja á þeim upplýsingum sem lögboðið er að Orkustofnun fái upplýsingar um svo við getum haldið úti einhvers konar skrá um þá losun sem íslensk fyrirtæki eru ábyrg fyrir. Það er sérkennilegt að íslensk fyrirtæki átti sig ekki á ábyrgð sinni í þessum efnum, að þar eigi allar tölur að liggja fyrir Orkustofnun til handa án eftirgangsmuna eða sérstakra þvingunarúrræða. Mér finnst mjög alvarlegt að þessar staðreyndir og upplýsingar skuli koma fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég sé ekki betur en að fjölmiðlar gætu látið til sín taka í þessu máli og væru rétta aflið til að beita fyrirtækin þrýstingi til að þau átti sig á ábyrgð sinni í þessum efnum. Hér þurfum við að taka höndum saman um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það getum við ekki nema fyrirtækin séu fús og viljug til samstarfs um að láta af hendi upplýsingar um þá losun sem viðkomandi starfsemi stundar. Sé eina ráðið að gefa Orkustofnun frekari heimildir til þvingana í þessum efnum þá verður svo að vera. Ég kem til með að styðja það en mér þykir miður að grípa þurfi til slíkra aðgerða.

Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tvö ný ákvæði bætist við, hið fyrra er svohljóðandi:

„Iðnaðarráðherra ákveður í samráði við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir hvaða eignir skuli færast með vatnamælingum til Íslenskra orkurannsókna. Þó skulu allar rannsóknaniðurstöður og gagnasöfn sem unnin hafa verið á vatnamælingum Orkustofnunar og fyrir almannafé áfram tilheyra Orkustofnun og vera eign stofnunarinnar.“

Mér finnst þetta athyglisvert. Ég set mig ekki upp á móti því ef af þessum aðskilnaði vatnamælinga verður. En mér finnst að ástæðan fyrir þessu ákvæði gæti mögulega verið sú að menn ætli sér þegar fram líða stundir að losa Íslenskar orkurannsóknir undan eigu almennings, úr opinberri eigu, og menn hyggist með þessu ákvæði að tryggja að dýrmæt gagnasöfn stofnunarinnar fari ekki með í þeirri sölu. Menn hafa brennt sig illa á því soði, t.d. nægir að nefna þegar listaverkasafn Landsbanka Íslands, sem var í sameign þjóðarinnar meðan bankinn var það, var selt nánast óafvitandi.

Við erum einnig minnug þess sem upphaflega var í frumvarpinu um Ríkisútvarpið, þegar segulbandasafn og safn hljóðritana sem Ríkisútvarpið hafði aflað sér með áratugastarfsemi átti að verða einn hluti af eignum Ríkisútvarpsins, sem nánast var hægt að falbjóða út úr stofnuninni. Það er búið að gera bragarbót á því frumvarpi núna en það var út af vökulu auga þingmanns okkar Vinstri grænna, Atla Gíslasonar, sem þau mál tóku breytingum og voru sett í annan farveg. Það kann að vera að hér séu merki um að ríkisstjórnin hafi þó lært að dýrmæt gagnasöfn, sem aflað hefur verið fyrir almannafé og eru í opinberri eigu, séu skilin eftir hjá þeim hluta stofnunarinnar sem ekki er ráðgert að einkavæða. En eftir standa einkavæðingarhugmyndir varðandi Íslenskar orkurannsóknir. Mér virðist 4. gr. til vitnis um það.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Það á eftir að fara í nefnd. Ég geri ráð fyrir að þessi umræða fylgi málinu og menn skoði þau atriði sem ég hef gert hér athugasemdir við í ræðu minni.