133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:12]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna sem fjallar fyrst og fremst um að framlengja umsýslugjald sem á að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins til að halda og þróa Landskrá fasteigna. Samkvæmt því eiga húseigendur að greiða sérstakt gjald sem er 0,1‰ á árinu 2007 og 2008, eins og þeir hafa gert frá árinu 2000. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þetta mál kom fyrst til umræðu á árinu 2000, á árinu 1999 sennilega og var samþykkt á árinu 2000, að þetta gjald var sérstaklega umdeilt og það þótti ekki sjálfsagt að það yrði sett á. Það var verið að setja álögur á fasteignaeigendur sem á þeim tíma höfðu kannski ekki þekkingu eða skilning á til hvers yrði. Ég hef hins vegar fylgst með þessu verkefni og eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal er alveg ljóst að það hefur þróast mjög vel. Þetta er viðamikið verkefni og það er mjög gagnlegt og það hefur sýnt sig að það er hægt að nota það til ýmissa annarra þátta en lagt var upp með. Til dæmis hefur þessi landskrá verið notuð varðandi þjóðlendumálin þannig að það sést á því að það er ekki eingöngu til efnislegra hluta eða bygginga sem það er notað.

Það má líka segja að það er mikill metnaður hjá stofnuninni, Fasteignamati ríkisins, að gera þetta kerfi vel úr garði og það er athyglisverð hugmynd hv. þm. Péturs H. Blöndals að þetta kerfi mætti nota til þróunaraðstoðar í öðrum löndum. Það er alveg ljóst að þetta kerfi hefur einfaldað verulega störf margra stofnana bæði hjá ríki og sveitarfélögum og verið mjög mikilvægt. Hins vegar hlýt ég að taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram varðandi kostnað verkefnisins. Það kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að þegar til dagsins í dag á árabilinu 2000–2006 hafa 1,6 milljarðar kr. farið í uppbyggingu á kerfinu og það kemur ekki fram hve mikill kostnaður er eftir af þessu starfi en það kemur hins vegar fram að með því að framlengja umsýslugjaldið er þetta 650 millj. kr. til næstu tveggja ára. Það vill þannig til að síðasta fimmtudag, fremur en föstudag, lagði ég mig sérstaklega eftir því að hlusta á forstöðumann Fasteignamats ríkisins á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga segja frá Landskrá fasteigna og þar kom einmitt fram að öll þau gögn sem ætlað var að færa inn í kerfið væru komin inn í kerfið, 93% þeirra væru gögn sem væru í lagi en 7% þeirra væru gögn sem þyrftu enn þá skoðunar við. Við hljótum því að spyrja okkur hve mikil vinna er eftir í þessu kerfi og hvort það kosti raunverulega 650 millj. kr. Það er það sem stendur út af borðinu.

Eins og ég sagði áðan þá hefur notagildi Landskrár fasteigna breyst, það hefur víkkað út. Jafnframt hefur mikilvægi þess fyrir ríkið minnkað, m.a. vegna þess að ríkið er hætt að innheimta eignarskatt, en á hinn bóginn hefur mikilvægi þess fyrir sveitarfélögin aukist því sveitarfélögin ætla að taka Landskrá fasteigna og nota hana til grundvallar við álagningu á fasteignagjöldum hjá sveitarfélögunum. Landskrá fasteigna mun vera grunnurinn að álagningu sveitarfélaganna og þannig séð mjög mikilvæg fyrir sveitarfélögin, mikilvægari fyrir sveitarfélögin í dag en fyrir ríkið. Í athugasemdum við frumvarpið, í greinargerðinni koma fram ágætar vangaveltur m.a. um brunabótamat og hvort það eigi að vera áfram hér á landi eður ei og bent á að brunabótamatið er ekki lengur meðal hinna Norðurlandaþjóðanna. Það er því ljóst að það eru ákveðin kaflaskil í þessu verkefni sem full ástæða er til að skoða og því hljótum við að fagna því að starfshópur er tekinn til starfa sem mun taka á þessum málum.

Það er hins vegar svo að þarna er þegar búið að leggja 1,6 milljarða kr. í verkefnið og mér verður hugsað til ýmissa annarra verkefna af svipuðum toga sem hefðu gagn af því að fá svona miklar fjárhæðir. Þá nefni ég sérstaklega rafrænar sjúkraskrár þar sem hugmyndin er í rauninni hin sama, það er að safna á einn stað upplýsingum sem eru unnar mjög víða í kerfinu og veita aðgang að upplýsingum. Þar er fasteignin ekki fókuspunkturinn heldur er það sjúklingurinn og ég held að við sem höfum haft mikinn áhuga á að koma á rafrænni sjúkraskrá hefðum gjarnan viljað hafa aðgang að svona miklu fjármagni til að þróa það áfram. Ég vildi nota þetta sem ákveðna hliðstæðu varðandi verkefni sem er ekki síður mikilvægt en kannski ekki á sama máta hægt að finna hverjir ættu að standa undir slíku verkefni aðrir en ríkið.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að skoða þetta frumvarp mjög vel og m.a. að velta fyrir sér og fá upplýsingar um hver staða verkefnisins er og hve mikið er eftir, hvað mikill kostnaður er eftir. Jafnframt hlýt ég að benda á að í umsögn fjárlagaskrifstofunnar kemur fram að tekjur eru áætlaðar 325 millj. kr. í fjárlögum en ég get ekki skilið það sem kemur fram í síðustu málsgreininni á annan hátt en að fjárheimildir stofnunarinnar til þess að standa undir landskránni séu 152,5 millj. kr. Við hljótum þess vegna að varpa fram þeirri spurningu, hvert fer þetta fjármagn sem út af stendur?