133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrðist á máli hv. þingmanns að við séum nokkuð sammála um að ef verðtryggingin væri afnumin þá yrðu viðskipti með lánsfé og ávöxtun sparifjár ef til vill einhvern vegin öðruvísi en þau eru í dag. Bankarnir eru reyndar búnir að opna á ýmsa möguleika. Þeir hafa opnað á gengistryggð lán. Þeir hafa líka opnað á að lána til langs tíma með háum föstum vöxtum þannig að þeir hafa svo sem stigið nokkur skref í þessa átt. Meginreglan er samt sú, hæstv. forseti, að lán til íbúðakaupa eru verðtryggð og lengri lán hafa hingað til verið verðtryggð. Það eru fyrst og fremst kannski þeir sem hafa verið í atvinnurekstri sem hafa tekið gengislán. Menn eru þá oft að taka lán með gengi svona eitthvað í samræmi við atvinnustarfsemi sína eða í samræmi við á hvaða gengi skuldbindingar þeirra eru eða þá í hvaða mynt þeir selja sína framleiðslu, þ.e. ef þetta eru framleiðendur og selja á útflutningsmarkaði. Það er auðvitað þekkt, hæstv. forseti.

Ég tel að það sé meira en tímabært — og ætla að láta það vera lokasvar mitt í þessu máli — ég held að það sé meira en tímabært að skoða þetta mál ofan í kjölinn og ég heyri það á máli hv. þm. Péturs Blöndals, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að hann mun skoða þetta mál frá öllum hliðum í nefndinni. Ég held að það sé mjög þarft að gera það. Við skulum velta þessum málum virkilega vel upp og skoða hvort við höfum verið á réttri leið og hvort ástæða sé til að breyta.