133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um það fyrirkomulag, þ.e. að kjósa framkvæmdarvaldið sérstaklega. Það er flókin umræða sem væri svo sem full ástæða til að fara kannski í gegnum, en svona fyrir fram er ég ekki á þeirri skoðun að við eigum að fikra okkur yfir á þá leið.

Hins vegar tel ég að ástæða sé til að fara mjög vandlega yfir þá hugmynd sem hv. þingmaður leggur hér fram, og ég hef verið að andmæla í andsvari mínu, vegna þess að það eru greinilega ýmsir á þeirri skoðun og hugmyndir af þessu tagi hafa birst hér og menn hafa talað fyrir þeim í þingsalnum.

En ég tel ákveðinn lýðræðisgalla á þessu sem er þá fólginn í því að stjórnarflokkar í hverju tilfelli — forustumönnum þeirra fjölgar um sem svarar ríkisstjórninni. Værum við með þetta fyrirkomulag núna hefðu um leið og þing var komið saman eftir síðustu kosningar — ef við gerum ráð fyrir að valdir hafi verið ráðherrar úr þingmannahópnum, bara svona til að einfalda málin í dag — varamenn 12 ráðherra gengið hér inn í þingsalinn. Þar með hefði fjölgað í forustu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um sex í hvorum hópi.

Þetta finnst mér ekki vera góð leið og tel ástæðu til að menn ræði hana mjög vandlega. Auðvitað hefur það líka sína kosti að ríkisstjórnin sé ekki úr þingliðinu, ég viðurkenni það. En þetta er galli sem mér finnst ástæða til að draga fram í umræðunni.