133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Við leggjum fram fyrirspurn, tveir þingmenn Samfylkingar í Suðurk., sá sem hér stendur og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, um tvöföldun á Suðurlandsvegi. Við lögðum fram þessa fyrirspurn þann 9. október vegna frétta sem þá voru um stofnun einkahlutafélags um tvöföldun Suðurlandsvegar. Þar komu fram mjög athyglisverðar hugmyndir um hvernig mætti flýta tvöföldun þessa vegar og full ástæða er til þess að forvitnast hjá hæstv. samgönguráðherra um hvort hann taki undir þær hugmyndir sem þar eru eða ekki.

Umferðarþunginn á Suðurlandsvegi hefur stöðugt aukist og það er öllum ljóst sem fara þennan veg reglulega að það er full þörf á vegabótum á leiðinni. Öll rök hníga að því að ráðist verði í þessa framkvæmd sem fyrst, hvort sem við lítum á umferðaröryggissjónarmið eða tjón sem verða á þessari leið. Öll rök, fjárhagsleg, tilfinningaleg og öryggisleg, hníga að því að ráðist verði í tvöföldun á Suðurlandsvegi.

Suðurlandið er landsvæði sem á núna í harðri samkeppni við önnur nærsvæði höfuðborgarsvæðisins, hvort sem litið er til Suðurnesja eða Vesturlands, og við vitum að það eru miklar samgöngubætur á leiðinni á Suðurnes með tvöföldun Reykjanesbrautar. Síðan hafa samgöngur til Vesturlands batnað verulega á undanförnum árum og fyrirhugað er með lagningu Sundabrautar að laga þá tengingu enn frekar. Það er mín skoðun að ef Suðurland nýtur ekki samgöngubóta í svipuðum mæli með tvöföldun á Suðurlandsvegi muni verða dregið mjög verulega úr samkeppnismöguleikum þess svæðis við hin nærsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Ég held að öllum sé það ljóst sem keyrt hafa Suðurlandsveginn að sú lausn sem þar hefur verið unnið að, og til bóta, að framkvæma svokallaðan 2+1 veg með víravegrið á milli, er ekki lausn til frambúðar. Hér er um að ræða veg sem liggur yfir fjall og ég er alveg sannfærður um að eftir einn harðan og snjóþungan vetur muni enginn skilja hvernig í ósköpunum stóð á því að menn fóru í þessa lausn, þennan 2+1 veg með víravegrið á milli. Þá verður kallað mjög hart eftir tvöföldun.

Ég held að hæstv. samgönguráðherra þurfi í sjálfu sér að fara að viðurkenna að umferðarþunginn á þessari leið er orðinn slíkur að það þarf að tvöfalda leiðina og það verði eingöngu sparnaður að því að viðurkenna það sem fyrst í stað þess að leggja í mikinn kostnað við að búa til 2+1 veg og þurfa að tvöfalda stuttu síðar.

Því spyrjum við hæstv. samgönguráðherra hvort hann hyggist heimila nýstofnuðu einkahlutafélagi, Suðurlandsvegi ehf., einkaframkvæmd um tvöföldun á Suðurlandsvegi og í öðru lagi hvaða leiðir ráðherrann telji færar við að fjármagna framkvæmdina.