133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

starfslok starfsmanna varnarliðsins.

136. mál
[14:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra voru skýr. Nei, það kemur ekki til greina að félag sem fær í heimanmund milljarða króna eignir frá því að varnarliðið var hér taki nokkurn þátt í því að stuðla að sómasamlegum starfslokum fyrir þá starfsmenn sem unnu hjá varnarliðinu í tugi ára. Þetta eru að mínu viti kaldar kveðjur til þessara starfsmanna sem helguðu alla sína starfsævi störfum fyrir einn vinnuveitanda, vinnuveitanda sem ákvað að fara og skilja þá eftir eingöngu með einfaldan uppsagnarfrest. Ég fullyrði að innlendir atvinnurekendur sem rekið hefðu fyrirtæki í tugi ára með sama starfsfólkinu og hefðu lagt niður starfsemi sem hefði skilið eftir sig milljarða króna verðmæti hefðu ekki hagað sér svona gagnvart því starfsfólki. Ég held að flestir innlendir atvinnurekendur hefðu séð sóma sinn í því að nota hluta af þeim verðmætum sem lægju eftir alla þá vinnu sem fólkið hefði innt af hendi til þess að gera starfslok meiri og betri en strípaðir samningar segðu til um.

Íslenska ríkið tekur þarna við milljarða króna verðmætum en það tekur líka við ákveðnum skyldum. Það tekur við þeim skyldum að hreinsa upp eftir varnarliðið. Það á að hreinsa upp mengaðan jarðveg, sprengjur, þann skít sem varnarliðið skildi eftir sig. En hæstv. ráðherra segir hér alveg kalt og kvitt að ekki skuli nota neinn hluta af þessum verðmætum til að hreinsa upp hvernig varnarliðið skilur starfsfólkið eftir, til að hreinsa upp gagnvart því starfsfólki sem hefur alla sína starfsævi unnið hjá varnarliðinu og situr eftir með einföld sex mánaða uppsagnarlaun.