133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skólagjöld í opinberum háskólum.

152. mál
[15:02]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Já, það er ánægjulegt að menn viðurkenni nú þá miklu fjölgun sem hefur orðið á háskólanemum — og hér úr ræðustóli þingsins. Það hefur kostað mjög mikla krafta og mikið fjármagn að standa undir því að stuðla að því að aðgangurinn verði sem greiðastur að háskólunum hér á Íslandi en aðgangur að háskólum hér er greiðari en gengur og gerist annars staðar í þeim samanburðarlöndum sem við lítum til.

En það er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn mun ekki ræða og ekki beita sér fyrir því að skólagjöld verði lögð á. En ég tel engu að síður rétt og í raun óhjákvæmilegt í náinni framtíð að taka upptöku skólagjalda til alvarlegra umræðna og með hvaða hætti. Ég held að það skipti miklu máli að við fáum sem breiðastan hóp að því borði.

Ég vil ítreka að ég heyri það, að ég og hv. fyrirspyrjandi erum ekkert ósvipaðra skoðana hvað varðar skólagjöldin. Það þarf auðvitað að lána fyrir þeim. Ýmsum aðferðum hefur verið beitt, t.d. í Bretlandi þar sem við sjáum ákveðnum aðferðum beitt annars vegar til þess að heimila skólagjaldsupptöku en hins vegar til að stuðla að því að skólagjöldin ógni ekki jöfnum tækifærum til náms. Það sama gildir t.d. um Ástralíu.

Þetta er umræða sem verður umfangsmikil. Það þarf að taka hana á breiðum grundvelli og fordómalaust. En ég tel að hvort sem horft er til lengri eða skemmri tíma verði óhjákvæmilegt að líta á skólagjöld sem eina af þeim leiðum sem hægt er að fara til að fjármagna háskóla. En það verður að gera afar varlega. Ég kalla líka til, nú sem áður, fyrirtækin í landinu til að stuðla að uppbyggingu háskóla. Einnig vil ég ítreka að ríkið mun að sjálfsögðu halda áfram að efla og auka framlög sín til háskólastigsins. En það verður ekki þannig að ríkið eitt og sér standi eingöngu undir háskólastarfinu.