133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

rannsóknir á ýsustofni.

252. mál
[18:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Enn höldum við áfram, við líffræðingarnir tveir hér á þingi, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, þessum merkilegu bollaleggingum um vistfræði hafsins og tengsl hinna ýmsu stofna, í náinni samvinnu við hæstv. sjávarútvegsráðherra, kannski ekki samvinnu eða samráði, en samt sem áður er hann hér til andsvara.

Mig langaði til að ræða aðeins um ýsuna, virðulegi forseti, og spyrja hæstv. ráðherra út í rannsóknir á ýsustofninum, hvort farið hafi fram einhverjar rannsóknir á mögulegum tengslum stórs ýsustofns umhverfis landið við niðursveiflu í sandsílastofninum. Þetta er spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér undanfarin missiri og kannski einkum og sér í lagi í sumar.

Mig langar til að rifja það upp að ástandið í sumar var á margan hátt mjög furðulegt. Þegar maður horfði á lífríkið, til að mynda á fuglalífið, sá maður að það var eitthvað mjög mikið að. Ég hef aldrei séð máva á beit í stórum hópum á graslendi, í móum og túnum, jafnvel á umferðareyjum og inni á lóðum hjá fólki. Banhungraðir mávar sem voru að leita sér að æti í sumar höfðu raðað sér skipulega niður, það var u.þ.b. einn fermetri á hvern fugl. Þeir voru að leita að einhverju, einhverju æti. Ekki veit ég hvað þeir voru að éta, en þeir voru alla vega ekki að éta það sem þeir eiga að vera að éta sem er fiskur og síli. Þetta voru sílamávar.

Við sáum líka að varp misfórst hjá svartfugli víða um land. Við sáum að varpið misfórst hjá kríunni mjög víða. Hún flýgur hingað umhverfis hálfan hnöttinn og ætlar að eiga hér bæði egg og unga og koma næstu kynslóð sinni á legg. En þetta virtist fara alveg skelfilega hjá vesalings kríunni í sumar. Hún virtist ekki finna æti. Maður sá að fuglar komu á hefðbundnar varpslóðir, reyndu að koma sér fyrir en nokkrum dögum síðar voru þeir horfnir, sennilega vegna þess að þeir fundu ekki æti. Hvert þeir fóru veit ég ekki en manni rann þetta ástand allt mjög til rifja. Það var einsýnt að það var eitthvað mikið að í lífríkinu.

Ég held að það hljóti að vera eitthvert samband á milli þess að ýsustofninn hefur vaxið gríðarlega hér við land á undanförnum árum. Skýrslur frá Hafrannsóknastofnun og stofnstærðarmat sýnir það mjög greinilega. Við vitum líka að það hefur minnkað mikið um sandsíli mjög víða. Ég veit að farið hafa fram rannsóknir á sandsílastofninum, þær fóru fram í sumar. Við fengum að heyra af því í fréttum að verið væri að rannsaka hvernig væri með útbreiðslu og viðkomu sandsílis. Ég hygg að fyrstu niðurstöður úr þeim rannsóknum séu alls ekki upplífgandi.

Ég held að það hljóti að vera samband þarna á milli, að þessi gríðarlega ýsumergð sem er nánast allt í kringum landið eigi stóran þátt í þessu máli, þ.e. að ýsan hreinsi hreinlega upp sandsílið af botninum og það sé kannski ástæðan fyrir þeim hörmungum sem við höfum séð.