133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega brýnt mál að ræða. Á þessu máli er lagaleg hlið og á því er siðferðileg hlið. Að sama skapi er um að ræða ábyrgð löggjafans og ábyrgð atvinnurekandans.

Ég tek undir það sjónarmið að nauðsynlegt er að herða á lögum sem þetta varða, og eftirliti og eftirfylgni laga. Ég vona að um það verði þverpólitísk samstaða, eins og hér hefur reyndar komið fram að geti orðið. Við erum að ræða það í félagsmálanefnd Alþingis og vonandi náum við samstöðu um að breyta lögum og herða að sama skapi á eftirliti framkvæmdarvaldsins með því.

Eins og ég sagði er einnig á þessu siðferðileg hlið. Um það eru mjög mörg dæmi að öryrkjar og atvinnulaust fólk, fátækt fólk á Íslandi, búi við þessar aðstæður. Það er hrikaleg tilhugsun og nokkuð sem okkur ber öllum að sameinast um að útrýma.

Síðan eru einnig dæmi um það að þetta tengist atvinnu fólks og þar vísa ég til ábyrgðar atvinnurekenda, óprúttinna atvinnurekenda sem hafa komið fólki fyrir í húsnæði af þessu tagi. Um getur verið að ræða bein tengsl og óbein, þetta er húsnæði á þeirra vegum. Þess eru dæmi að fólk búi allt upp í 12–15 manns í herbergjum, er þar í flatsængum, fólk sem vinnur á vöktum. Ég hef dæmi um (Forseti hringir.) smáar íbúðir þar sem búa 10–15 manns. Hér vísa ég til ábyrgðar samfélagsins og ég vísa til ábyrgðar atvinnurekenda.