133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:34]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framsögu hv. þingmanns komu fram mjög merkilegir hlutir, þ.e. í kaflanum um efnahagsmál og efnahagsstjórn. Þar segir að nú standi svo að miklar deilur séu uppi og ekki samræming á milli efnahagsstefnu Seðlabankans og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem sé gjörólík, og þeir aðilar vinni hvor í sína áttina, eins og stendur þar.

Ber að skilja þetta svo, virðulegi forseti, að hv. þingmaður sé sammála peningastefnu Seðlabankans? Það er mjög mikilvægt að fá það fram vegna þess að við höfum deilt um það árum saman, sérstaklega síðustu tvö, þrjú árin. Er hv. þingmaður sammála vaxtastefnu Seðlabankans? Telur hann að hún hafi verið rétt? Telur hann að Seðlabankinn hafi gert rétt með því að festa sig svo í þessi ný-keynesísku módel að hækka eigi vexti hvað sem tautar og raular þó að engin verðbólga sé á Íslandi önnur en í fasteignum? Þessu höfum við staðið frammi fyrir í tvö ár.

Er nú svo komið að stjórnarandstaðan á Íslandi er orðin sammála þeirri peningapólitík? Það er mjög nauðsynlegt að vita hvort svo er, því að hér eru sögð stór orð. Það er sagt að óstjórn sé í stefnu ríkisstjórnarinnar, óstjórnin sé algjör og hún beri vitni um — hvað stendur? „Slíkt ber vott um fullkomna vanþekking á hagkerfinu.“ Það er ekki verið að spara orðin hérna, það er ekki verið að spara þau.

Hvað er það þá, virðulegi forseti, sem þingmaðurinn telur að ríkisstjórnin hafi átt að gera samkvæmt tillögum Seðlabankans? Í hverju var það fólgið? Átti hún að berjast gegn öllum kaupmætti launþega eða bótaþega eða gegn hverju átti hún að berjast? Átti hún að berjast gegn því að lækka skatta, átti hún að berjast gegn því að umhverfi atvinnulífsins væri eins og það er?