133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að sjálfstæði þingsins mætti vera meira þegar fjárlög eru annars vegar, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Ég hef t.d. sagt að óforsvaranlegt sé að ráðherrar skuli vera að koma með fjárveitingar upp á óskir — um hvað, 5 milljarða? Kom ekki 5 milljarða ósk út af Kárahnjúkavirkjun frá einhverju ráðuneytinu sem fjárlaganefnd afgreiddi bara pappírslaust í gegnum fjárlaganefnd? 100 milljónir til íslenskukennslu fyrir útlendinga, hvaðan kom sú tillaga? Við erum búin að krefjast þess hérna á þinginu að þetta gerist, en framkvæmdarvaldið kemur síðan með ordrurnar til fjárlaganefndar sem hún afgreiðir út pappírslaust. Oft má því fjárlaganefnd vera krítískari í því sem hún er að gera eða sjá til þess að meiri umræða allra sé í fjárlaganefnd og þá helst hér á þinginu líka um þau verkefni sem eru að fara í gegnum nefndina, þannig að sjálfstæði þingsins í fjárveitingamálum á auðvitað að vera til staðar.

Varðandi náttúrustofurnar eigum við bara að sjá til þess að þær fái inn í sinn grunn það sem þær þurfa til starfs síns. Við vitum alveg hvað þær þurfa til síns starfs. (Gripið fram í.) Við vitum það alveg öll hér, bæði minni hluti og meiri hluti, að náttúrustofurnar geta ekki lifað af með 5 millj. kr. fjárveitingu eða hvað það er sem fjárlögin gera ráð fyrir að þær fái á hverju ári. Þær vita því aldrei þegar fjárlagafrumvarpið kemur út hvað þær hafa til starfans eða hverju fjárlaganefnd ætlar að bæta við þær. Þess vegna sagði ég að það er rokkað frá ári til árs með fjárveitingar til náttúrustofanna. Það er óviðunandi að þurfa að vinna við þær kringumstæður.

Ég held að við verðum að koma miklu meira og betra skikki á þessi fjárlög og þegar hv. fjárlaganefnd afsakar sig eða friðar samvisku sína þegar hún er búin að úthluta árum saman til einstakra verkefna á verksviði húsafriðunarnefndar, þá friðar hún samvisku sín eins og hún hefur gert núna síðustu tvö eða þrjú árin með því að kalla formann húsafriðunarnefndar til sín að borðinu þannig að ekki sé hægt að saka (Forseti hringir.) þá um að það sé ófaglegt sem verið er að gera. (Forseti hringir.) Þetta er kannski til bóta, ég viðurkenni það, en þetta er til að friða samviskuna.