133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:49]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður beindi til mín að minnsta kosti tveimur efnislegum spurningum. Sú fyrri snýr að heilbrigðismálum. Það var ljóst hér við 2. umr. fjáraukalaga að meiri hluti nefndarinnar og nefndin, að ég tel, ætlaði sér að fara í vinnu sem varðaði stöðu einstakra heilbrigðisstofnana og öldrunarstofnana. Sú vinna er í gangi og meiri hluti nefndarinnar mun við 3. umr. fjáraukalaga koma með sínar tillögur um að bæta stöðu einstakra heilbrigðis- og öldrunarstofnana og munum við gera nánar grein fyrir því innan fjárlaganefndar og í umræðum í næstu viku.

Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort minni hluti fjárlaganefndar og stjórnarandstaðan á þingi verði með tillögur í málefnum öldrunar- og heilbrigðisstofnana. Það er trúlegt að þau vísi þá til þess að þau hafi gert tillögur árið 2004 og 2005 og þær standi náttúrlega vegna fjárlagagerðar ársins 2007. En þannig virka bara hlutirnir ekki. Það er ný staða hjá hverri einustu heilbrigðis- og öldrunarstofnun landsins. En Vinstri grænir ætla að skila auðu í því og segja að stefnan sé skýr. En hún er einfaldlega ekkert skýr því að við þurfum að setja fjárlagaramma vegna ársins 2007. Ef hv. stjórnarandstaða heldur að hún komist upp með að vera ekki með tillögur í menntamálum og heilbrigðismálum þá á hún eftir að reka sig á að slíkt gengur ekki upp. Kjósendur verða að vita fyrir hvað stjórnarandstaðan stendur í einstökum málaflokkum. Það er lágmarkskrafa. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Í öðru lagi fór hv. þingmaður yfir samgöngumálin og hugmyndir um einkaframkvæmdir. Því er til að svara að það hefur náttúrlega ekki verið skrifað undir þá samninga og þeir hafa ekki verið bornir undir forustu fjárlaganefndar.