133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um opinbera listastefnu, líkt og gerðist í einræðisríkjum. Við greiðum atkvæði um heiðurslaun listamanna og þar er lagður til menningarsmekkur hins opinbera. Ég er á móti því, auk þess sem ég tel að þeir listamenn sem eru þarna á listanum séu margir hverjir komnir á þann stað í lífinu og búnir að ná þeim árangri að þeir þurfi ekki styrkja við.

Hins vegar, ef menn ætla að veita heiðurslaun geta menn farið út í það að veita 1 kr. á mánuði sem er miklu ódýrara fyrir ríkissjóð. Svo vantar á listann suma listamenn. Ég hef bent á það áður, mjög merka listamenn sem við Íslendingar eigum, eins og Björk Guðmundsdóttur sem er mjög merk og ég vildi gjarnan veita heiður en hún þarf ekkert á neinum styrk að halda þannig að það yrði mjög gott að veita henni 1 kr. á mánuði. Þar með fengi hún heiðurinn.

Þarna vantar líka fleiri listamenn sem við eigum og eru mjög merkir. (Gripið fram í: … Megas?) Ég er sem sagt á móti slíkri opinberu stefnu þar sem hið opinbera segir: Þetta er list og annað er ekki list. (Gripið fram í: Þetta var listileg ræða.)