133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

umferðarlög.

381. mál
[17:23]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Baldursdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum Þuríði Backman og Hjálmari Árnasyni fyrir innlegg þeirra.

Já, það er ekki neitt nýtt að heildin þurfi gjarnan að líða fyrir minni hlutann og í þessu tilviki jafnvel bara lítinn hóp og það er mjög ósanngjarnt. En ég er hrædd um að einhvers staðar mundi heyrast hljóð ef við færum að leggja það til að búa til ólík lög fyrir kynin, ein lög fyrir stúlkurnar og önnur fyrir drengina. Ég get því ekki alveg séð það fyrir mér hér og nú að slík umræða yrði vinsæl í allri þeirri jafnréttisumræðu sem við erum búin að vera í undanfarin ár og eigum þar margt eftir að laga.

Staðan er því sú að því miður yrði þetta að ganga yfir alla heildina. Við erum að tala um 3–4 þúsund ungmenni í hverjum árgangi. Það eru ekki allir sem taka bílprófið um leið og þeir ná 17 ára aldrinum en sá hópur sem fer út í umferðina ár hvert núna eins og staðan er, 17–18 ára, er 3–4 þúsund. Ef frumvarpið verður að lögum gilda að sjálfsögðu ein lög yfir allan hópinn. Deila má um hversu sanngjarnt það er en svona er það nú.

Hins vegar voru margir góðir punktar sem komu fram áðan. Ég fagna því einnig að ekki séu fleiri mótrök sem hafa komið fram við 1. umr., sem segir mér að ég held að almennt séð sé fólk tiltölulega sátt við að fara að huga að því að taka þetta skref.

Mig langar til að nefna eitt atriði. Þegar ég hugsa til baka og ákveðið var á hinu háa Alþingi að færa sjálfræðisaldurinn frá 16 ára upp í 18 ár, þá minnist ég þess að mörgum þótti þetta skelfilega róttæk breyting. Við höfðum í mörg ár búið við það að 16 ára unglingur varð sjálfráða, hann gat tekið sínar ákvarðanir, pakkað niður í tösku og farið að heiman ef honum sýndist svo.

Núna finnst okkur í rauninni ekki nema eðlilegt að aldurinn sé 18 ár. Þetta er mjög sambærilegt finnst mér, að eftir nokkur ár þegar við munum hugsa til baka, þ.e. verði frumvarpið að lögum, þá held ég að við minnumst þess ekki svo mjög skýrt að þetta hafi verið nein sérstök róttæk breyting. Þannig er það með svo margt þegar við erum að gera breytingar, að þegar til lengri tíma er litið er þetta í rauninni bara allt saman frekar eðlilegt.

Þarna er verið að gera mikla samræmingu. 18 ár er jú aldurinn sem við höfum skilgreint að barn komist í fullorðinna manna tölu. Ekki er þar með sagt að þann dag sem barn eða unglingur vaknar á 18 ára afmælisdegi sínum sé hann orðinn fullþroska, síður en svo. Þroskinn heldur áfram, kannski langt fram yfir tvítugsaldurinn og eins og ég sagði áðan með mismunandi hraða. Og það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, að við vitum að stúlkur fara gjarnan hraðar í gegnum þennan þroska, bæði líkamlegan og vitsmunalegan þroska, og þannig hefur það sjálfsagt verið alla tíð, að minnsta kosti í mörg ár og ég sé ekki að það verði neinar sérstakar breytingar á því.

Ég fagna því að ekki eru fleiri mótrök við 1. umr. og vonast til að frumvarpið fái farsæla meðhöndlun við 2. og 3. umr.