133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[17:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að þakka fyrir að þetta mál skuli flutt. Það er tímabært að fram komi þingmál af þessu tagi. Umræður um þessi mál hafa reyndar oft staðið í sölum Alþingis og kröfur um að tekið verði á þessum málum hafa legið fyrir lengi en ekki verið fyrir hendi vilji stjórnvalda til að gera neitt sem bragð er að í þessum málum.

Tvískinnungshátturinn er ótrúlegur hvað skattlagninguna varðar. Mönnum finnst sjálfsagt að það sé lágur skattur á tekjum sem menn hafa af eignum sínum ef þær eru í fjármunaformi. Það á að vera miklu lægri skattur en ef menn þræla fyrir þeim tekjum sem um er að ræða með höndunum eða einhvers konar starfsemi. Ég hef aldrei getað skilið hvernig hægt er að skilja sundur störf manna hvað skattlagningu varðar. Ég tel það jafnmikla vinnu og eiga að bera alveg jafnmikinn skatt ef starfsemi manns er fólgin í að stýra fjármagni og hafa peninga út úr því eins og að prjóna peysu eða sokka til að selja. Þess vegna er þetta ófært.

Svörin sem menn fá í umræðunni um þessi mál eru að ef fjármagnstekjuskatturinn hækki þá hverfi menn úr landi með peningana sína. En það á ekki við þegar farið er að ræða um sparnaðinn hjá eldri borgurum. Þeir komast ekki burtu. Það virðist vera málið. Það á að skattleggja þá sem hægt er að ná til en hinir eiga að sleppa. Ég segi þess vegna að það er ástæða til að velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að komast einhverja millileið í þessu. Þarna væri t.d. hægt að hækka fjármagnstekjuskatt lítillega og í staðinn gætum við haft lægri skattlagningu á lífeyrisgreiðslur og aðrar sambærilegar greiðslur. Þá á ég auðvitað við sparnað fólks af öðru tagi. Þarna þarf að vera samræmi á milli.

Það þarf líka að undanþiggja tiltekinn sparnað þannig að allir hafi hann frjálsan að einhverju marki, eðlilegan sparnað fólks. Það er engin ástæða til að skattleggja hann. Ég tel að ríkinu sé engin vorkunn að leggja það til með því fólki sem býr í landinu, þ.e. að leggja lægri skatta á lífeyrissparnað þess, þótt hann sé ekki skattlagður í upphafi. Hann er grunnur þeirra tekna sem menn fá úr lífeyrissjóði í framtíðinni og með því er létt því fargi af ríkinu, sem það átti allan tímann að bera, þ.e. bera ábyrgð á því að við sameiginlega sæjum til þess að enginn liði skort í elli sinni. Ríkið hefur létt þessu af sér frá því að lífeyrissjóðirnir fóru af stað. Síðan þá hefur stefnan og framtíðin verið sú að lífeyrissjóðirnir beri þetta allt uppi. Ég tel að menn eigi einfaldlega að gera hlutina þannig að allir geti vel við unað. Lífeyrissjóðirnir taka smám saman við hlutverki sem áður var talið hlutverk hins opinbera og í það stefnir að menn fari þann veg á enda. En menn verða að gera það myndarlega.

Þegar talað er um fjármagnstekjuskatt og annað slíkt þá segja menn gjarnan: Ja, ég er ekkert á móti því að menn græði. Ég er ekkert á móti því að menn hafi það gott. En hvers vegna þurfa einhverjir að hafa það skítt í þessu samfélagi? Ég tel enga ástæðu til þess. Þetta er svo öflugt og ríkt samfélag að það er engin ástæða til að neinn hafi það skítt. Það er okkur til skammar ef fólk þarf að hafa áhyggjur af framfærslu sinni í ellinni. Það er engin ástæða til þess. Það er heldur engin ástæða til að óttast um hagsmuni ríkisins þótt hagur eldri borgara braggist frá því sem er. Það skilar sér allt til baka í ríkissjóð. Þótt menn hafi það sæmilegt í ellinni þá mun ríkissjóður ekki tapa á því.

Það hefur sýnt sig að eftir því sem samfélagið hefur orðið öflugra og ríkara þá hefur ríkissjóður fitnað og bólgnað sem aldrei fyrr. Það mun ekki verða ríkissjóði til bölvunar að eldri borgarar í þessu landi þurfi ekki að klípa hverja krónu til að geta framfleytt sér, eins og raunin er um hluta af eldri borgurum þessa lands. Það er því tímabært að ræða þetta mál og ekki bara ræða heldur láta til skarar skríða og koma á meira réttlæti í þessum málum en verið hefur. Okkur er engin vorkunn að gera það.