133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vorkenni hv. þm. Pétri H. Blöndal ekkert þó hann sitji í þingsalnum. Ég sit þar lengst af sjálfur og hv. þm. Pétur H. Blöndal er líka mjög duglegur að taka þátt í umræðum.

Hins vegar finnst mér hann gera lítið úr því máli sem hér er til umræðu, þ.e. fjáraukalögum ríkisins. Við erum að fara í rauninni yfir útkomu ársins 2006 og leita jafnframt skýringa hvað hafi farið úrskeiðis. Kannski vill hv. þingmaður upplýsa mig um hvers vegna það gerðist að spáð var 11–12% viðskiptahalla en hann reyndist síðan vera um 20%? Er það einhver áætlanagerð, áætlanagerð fyrra árs var nú ekkert betri, þegar við erum að gera upp árið?

Ég spyr, af hverju eru stýrivextir núna 14% en var spáð að yrðu miklu lægri? Þetta er með því hæsta sem gerist. Við erum að taka út fjárlagaumræðu ársins. Það má vel vera að hv. stjórnarþingmönnum finnist það vera smámál. Það má vel vera.

En fyrir mér er það ekki smámál, fjárlög íslenska ríkisins, segi það alveg eins og er, þegar verið er að fara ofan í einstaka þætti þess eða hvernig fjárlögin hafa verið framkvæmd. Ég spyr, af hverju þurfum við núna að setja inn stórar upphæðir einstakra málaflokka, sem lá fyrir fyrir ári síðan að þyrfti? Mér finnst því að hv. þingmaður megi ekki gera mjög lítið úr þessum mikla og stóra málaflokki. Fyrir mér er þetta stórmál.