133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fylgst með ræðu hv. þingmanns, hann kom víða við og síðast kom hann að ferjusiglingunum yfir Breiðafjörð. Í dag er einnig felld niður ferð yfir Breiðafjörðinn vegna þess að ekki er hægt að lenda við bryggjuna á Brjánslæk. Það eru komnir fimm dagar núna á skömmum tíma sem ekki hefur verið hægt að fara yfir vegna þess að ekki hefur verið hægt að lenda við bryggjuna. Og samtímis voru fregnir um að Klettsháls væri ófær.

Í ljósi þeirrar þekkingar á siglingum og veðrum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur þá langar mig til að spyrja: Hvað má búast við að þetta geti gerst oft á næstunni í svona vetrarveðrum?

Af því að hv. þingmaður þekkir mjög vel til þessara aðstæðna vildi ég aðeins heyra hvað við eigum að gera. Hvað getum við gert? Það er hægt að ráðast í framkvæmdir strax. Ég hef lagt til að taka þurfi a.m.k. ákvörðun þegar í stað.

Þarna er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða og öryggismál fyrir alla íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég vildi aðeins heyra nánar um þetta hjá hv. þingmanni vegna þess að þó að hann sé góður á öllum sviðum þá veit ég að siglingarnar eru hans fag og meðferð báta í góðum og slæmum veðrum.