133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

forsendur fyrir stuðningi við innrásina í Írak.

[15:09]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér gætir enn þess misskilnings sem ég gat um í síðustu viku í umræðum um þetta mál, að það mundi einhverju breyta fyrir ástandið í Írak eða framgang þessa máls hvað við segjum um það á Alþingi. Algjörlega er það fráleit kenning eins og allir hljóta að sjá. (Gripið fram í: Ágreiningur í ríkisstjórninni.) Við tókum ákvörðun á sínum tíma, hún var tekin á grundvelli ákveðinna málsástæðna, alveg eins og danska ríkisstjórnin ákvað að senda sína eigin hermenn til þátttöku í Írak og þar eru þeir enn. Hún tók hana á þeim grundvelli og rökstuddi með því að írakska stjórnin hefði ekki framfylgt þeim ályktunum Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins sem þá lágu fyrir. Það voru þær ástæður sem danska ríkisstjórnin gaf þinginu þar og þjóðinni og heldur sig enn þá við. Hins vegar held ég (Gripið fram í.) að sú ákvörðun sem tekin var af okkar hálfu hafi verið rétt í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)