133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:12]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, allir vildu Lilju kveðið hafa, eru eiginlega einu viðbrögðin sem hægt er að sýna við fyrri hluta andsvars hv. þingmanns. Ég minni hv. þingmann og hv. þingheim á að fyrir síðustu alþingiskosningar var það á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að lækka matvöruverð með því að lækka virðisaukaskatt. Aðspurðir sögðu fulltrúar Samfylkingarinnar að þeir hefðu það ekki á sinni stefnuskrá að lækka matvöruverð (Gripið fram í.) með því að lækka virðisaukaskatt, hv. þingmaður. Sem betur fer skiptu þeir um skoðun. Ég verð að segja að ég gleðst yfir því að þeir skuli hafa gert það og ég treysti því að Samfylkingin muni fylgja þessu máli í þinginu og styðja ríkisstjórnina í því.

Varðandi tollalækkanir á kjötvörum þá er um það að segja að það krefst meiri útfærslu og jafnframt þess að haft verði samráð við aðra aðila. Um þetta er hægt að semja þannig að okkar vörur fái þannig jafnvel ívilnanir á erlendum mörkuðum á móti.