133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingmaður standa sig vel í túlkunum á orðum fyrrverandi aðstoðarmanns landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann heldur því fram að sá ágæti maður hafi með ummælum sínum viljað forða íslenskri bændastétt frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ég veit ekki einu sinni hvort ESB mundi duga til þess, herra forseti.

Spurning mín grundvallast á því að við blasir að áfram verður haldið hinum svokölluðu Doha-viðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það hefur komið fram. Þær höfðu áður, að menn töldu, runnið út í sandinn.

Ég hef sjálfur hlustað á ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins fyrir Evrópunefnd forsætisráðherra greina frá því að það sé almenn skoðun þeirra sem starfa innan vébanda þess samningaferlis, að líklegt sé að niðurstaða þeirrar samningalotu sem nú fer í hönd leiði til þess að aðildarríki stofnunarinnar neyðist til að létta innflutningstollum af sem nemur 40–50%. Það er um það bil hið sama og sá áfangi sem Samfylkingin lagði til vegna þess að við tókum auðvitað mið af þeim veruleika sem blasir við. Ég held þess vegna að íslenskur landbúnaður muni standa frammi fyrir þessu þegar fram líða stundir og fyrr en síðar, hugsanlega áður en kemur til forsetakosninga í Bandaríkjunum sem nú eru ekki langt undan. Ég held að þetta hafi verið það sem réði orðum og ummælum Sigurgeirs Þorgrímssonar sem hv. þingmaður vitnaði til.

En er það þá ekki svo að betra sé fyrir okkur að hafa frumkvæði að þessu og ráða því meira sjálfir, Íslendingar, hvernig við förum í það að létta af innflutningsvernd sem þessu nemur, heldur en að láta aðrar útlendar stofnanir skipa okkur fyrir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunin mun gera?