133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:59]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Nefndin hefur haldið áfram umfjöllun sinni um frumvarpið frá því að 2. umr. fór fram 23. nóvember sl. Meiri hluti nefndarinnar gerir nokkrar breytingartillögur við frumvarpið sem nema alls 96 millj. kr. til lækkunar útgjalda.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara hér yfir allar þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um en ætla að stikla á þeim stærstu hvað það varðar.

Í fyrsta lagi er vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna lögð til 139 millj. kr. lækkun fjárveitingar sem er vegna þess að umsóknum um námslán hefur ekki fjölgað eins mikið og gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins, auk þess sem gengisþróun hefur verið hagstæðari. Sama breyting er lögð til á útgjöldum og í ríkisframlagi í C-hluta.

Í öðru lagi er lagt til að framlag til flugverndar verði lækkað um 60 millj. kr. sem skýrist af minni kostnaði við flugvernd vegna farþega frá þriðja ríki. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir tæplega 160 millj. kr. hækkun til verkefnisins en nú er ljóst að kostnaðurinn verður talsvert minni. Sama breyting er lögð til á útgjöldum og ríkisframlagi í B-hluta.

Hvað útgjaldahliðina varðar er gerð tillaga um 12,6 millj. kr. tímabundna hækkun á liðnum fyrirhleðslur. Þar af er gert ráð fyrir 12 millj. kr. framlagi vegna neyðarástands sem skapast hefur við Jökulsá á Fjöllum í Kelduhverfi vegna klakastíflna í ánni. Hefur áin hlaupið úr farvegi sínum í Skjálftavatn og var mikil hætta á að hún ryddi sér leið í Litluá sem hefði haft í för með sér mikið landbrot og ómældan skaða á lífríki árinnar. Talið er nauðsynlegt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Þeir sem til þekkja eru trúlega sammála um brýna nauðsyn þess að þarna verði gripið inn í og veittir fjármunir til þess að verja Skjálftavatnið og það lífríki sem þar er auk þess sem byggðinni í Kelduhverfi væri mikil hætta búin ef allt færi nú á versta veg í því máli sem þarna um ræðir og áin ryddist inn í vatnið. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Í fjórða og síðasta lagi er lögð til 45 millj. kr. fjárheimild til að standa straum af útgjöldum vegna umferðaröryggisáætlunar. Í nýlegum breytingum á umferðarlögum hækkar umferðaröryggisgjald úr 200 kr. í 400 kr. Áætlað er að hækkun gjaldsins skili 45 millj. kr. í auknar tekjur á næsta ári. Áformað er að ráðstafa tekjunum til umferðaröryggismála og gæðamats á vegum.

Það eru að sjálfsögðu nokkrar fleiri tillögur frá meiri hluta nefndarinnar en ég ætla tímans vegna ekki að fara í þær allar, heldur vísa ég til breytingartillagna frá meiri hluta nefndarinnar sem hefur verið dreift á sérstöku þingskjali.

Hæstv. forseti. Almennt um fjárlögin og fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Eins og komið hefur fram í umræðum um fjáraukalög fyrir árið 2006 og fjárlög ársins 2007 er staða ríkissjóðs mjög sterk. Ef við horfum til ársins 2005 skilaði ríkissjóður yfir 100 milljarða kr. afgangi og ef við horfum til fjáraukalaga ársins 2006, þessa árs, er gert ráð fyrir um 45 milljarða kr. afgangi. Samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér er gert ráð fyrir ríflega 9 milljarða kr. afgangi á næsta ári. Þessi sterka staða veldur því að ríkissjóður hefur getað greitt niður skuldir sínar að allverulegu leyti þannig að nettóskuldastaða ríkisins er nær engin. Ef við förum aftur til ársins 1998 greiddi ríkissjóður vaxtagjöld sem samsvöruðu öllum útgjöldum til menntamála. Við vörðum sömu fjármunum í allt menntakerfi landsins og við greiddum í vaxtagjöld. Hér er um gríðarlegan viðsnúning að ræða og þar af leiðandi er hægt að verja miklu meiri fjármunum til velferðarkerfisins í framtíðinni vegna þess að skuldir og skuldastaða ríkissjóðs er með þeim hætti sem raun ber vitni. Fyrir utan það blasti árið 1995 við mjög alvarleg staða hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Frá árinu 1995 er búið að setja yfir 100 milljarða kr. inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það blasti við mikill greiðsluvandi hjá lífeyrissjóðnum sem hefði getað leitt til þess að hann hefði orðið nánast gjaldþrota. Það hefur verið stefnumið þessarar ríkisstjórnar að efla lífeyrissjóðakerfið í landinu og sérstaklega Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er mjög mikið hagsmunamál fyrir lífeyrisþega í landinu að við stöndum vörð um þennan styrka lífeyrissjóð. Reyndar, hæstv. forseti, er lífeyrissjóðakerfi Íslands með því sterkasta sem um getur í Evrópu og öðrum löndum sem við berum okkur saman við og það skiptir miklu máli að við stöndum vörð um þetta mikilvæga kerfi sem á að vera lífeyrisþegum á efri árum til halds og trausts í þeirri lífsbaráttu sem það fólk á í hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ef ég dreg saman í örstuttu máli þær breytingar sem við leggjum til í þessu frumvarpi og þær útlínur sem fjárlög ársins 2007 marka er verið að skila ríkissjóði með 9 milljarða kr. afgangi. Þannig getum við haldið áfram að greiða niður skuldirnar og eins og ég sagði áðan eru þær nær engar orðnar í dag. Jafnframt er miklum fjármunum varið til mennta-, heilbrigðis- og velferðarmála og líka til þess að bæta kaupmátt heimilanna og stöðu fjölskyldnanna. Ætla ég að fara í örfáum orðum yfir það.

Í því frumvarpi sem við ræðum hér er gert ráð fyrir að barnabætur muni á næsta ári hækka um 25% á milli áranna 2006 og 2007. Þó var gefið heilmikið í hvað barnabæturnar varðaði á milli áranna 2005 og 2006 þannig að á næsta ári verða það 8,5 milljarðar sem fara til barnabótakerfisins samanborið við 5,5 milljarða á árinu 2005. Á milli áranna 2005 og 2007 eru hækkuð framlög í barnabótakerfið úr um 5,5 milljörðum upp í 8,5 milljarða. Þetta er í samræmi við það sem m.a. við framsóknarmenn lofuðum fyrir síðustu kosningar, þ.e. að stórauka framlög til barnabótakerfisins, og veitti ekki af. Þær breytingar sem við erum að gera núna á barnabótakerfinu ganga í þá átt að nú munu unglingar á aldrinum 16–18 ára njóta þess að fá barnabætur enda er það eðlilegt mál þar sem sjálfræðisaldurinn hefur verið hækkaður úr 16 árum upp í 18. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða, sérstaklega fyrir fjölskyldur sem eru með unglinga á þessu árabili á framfæri sínu. Einnig munu þessar breytingar leiða til þess að tekjulágt fólk og millitekjufólk mun fá hlutfallslega meira af þessum 1,7 milljörðum en aðrir þannig að hér er um tekjujöfnun að ræða í skattkerfinu sem mun sérstaklega skila sér til lágtekjufólks.

Við leggjum líka áherslu á það, stjórnarflokkarnir, að lækka tekjuskattsprósentuna. Hún mun lækka um 1% á næsta ári og við skulum hafa það í huga í þessari umræðu að stjórnarandstaðan öll hefur lagst gegn því að tekjuskattur á einstaklinga yrði lækkaður um þetta 1%. Hvað sögðum við fyrir síðustu kosningar? Hvað sögðum við við námsmenn og fólk sem var nýkomið úr námi, fólk með gríðarlega framfærslubyrði? Reyndar var það með sómasamleg laun, góð laun, en við getum ekki horft til launanna einna og það veit fólkið sem streðar í þessum málum. Það er mikil framfærslubyrði, fólk er að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti, eignast börn og koma sér áfram í lífinu. Þetta fólk hefur ekki fengið, í ljósi þess að það hefur haft háar tekjur, miklar barnabætur og ekki miklar vaxtabætur heldur. Þá spurðum við: Hvernig á að bregðast við þessum vanda hálaunafólks? Þetta fólk lendir sem sagt í þessum jaðaráhrifum í skattkerfinu og það er ekki hægt að bregðast við gagnvart þessum hópi nema með því að lækka tekjuskattinn. Við lofuðum því fyrir síðustu kosningar, báðir ríkisstjórnarflokkarnir, að tekjuskattsprósentan á hinn vinnandi mann yrði lækkuð.

Síðan kemur hv. stjórnarandstaða og andæfir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra voru kjörnir á þing með þetta veganesti. Meiri hluti þjóðarinnar (Gripið fram í.) hefur verið sammála um að það eigi að lækka tekjuskattsprósentuna jafnframt því sem við bætum tekjur lífeyrisþega og barnafjölskyldna með lág laun.

Síðast en ekki síst gerum við ráð fyrir því að frá og með næstu áramótum verði skattleysismörk hækkuð upp í 90 þús. kr. Það er mikið hagsmunamál fyrir eldri borgara þessa lands, láglaunafólk og aðra lífeyrisþega. Þetta var gert í kjölfar samkomulags við aðila á vinnumarkaðnum til að tryggja stöðugleika þar og við höfum náð meiri stöðugleika í hagkerfinu eftir að það samkomulag var gert. Þetta mun leiða til þess að skattleysismörk fara úr rúmum 78 þús. kr. upp í 90 þús. og hækka þar af leiðandi um 14% á milli ára. Trúlega megum við gera betur í þessum efnum og það er ákveðin framtíðarmúsík en við stígum hér stór skref á milli áranna 2006 og 2007 til að bæta stöðu lífeyrisþega og eldri borgara.

Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið að lækka virðisaukaskatt af matvælum þann 1. mars nk. sem mun leiða til þess að verðbólga á næsta ári verður mun minni en upphaflegar forsendur fjárlagafrumvarpsins, þegar það var lagt fram, gerðu ráð fyrir þannig að kaupmáttur almennings eykst við þetta og matarverð í landinu lækkar. Það er búið að vera svo merkilegt hér á þessu kjörtímabili að hv. stjórnarandstæðingar hafa komið hér upp trekk í trekk og sagt að Framsóknarflokkurinn væri sérstaklega á móti því að lækka matarskattinn. Það heyrist ekki hátt í hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar í dag þegar þessar tillögur um lækkun matvælaverðsins hafa verið lagðar fram sem er mikið hagsmunamál fyrir íbúa landsins, heimilin í landinu.

Við framsóknarmenn höfum jafnframt sagt að við förum ekki í blindar skattalækkanir á kostnað velferðarkerfisins. Það hefur verið útgangspunktur okkar framsóknarmanna í þeirri umræðu að ef við ætlum að ráðast í skattalækkanir megi það ekki bitna á heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu. Í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs er svigrúm til þess að lækka matarskattinn, virðisaukaskatt af matvælum og nokkrum öðrum vöruflokkum, úr 14% niður í 7%.

Hæstv. forseti. Annað það sem er mikið rætt í þessari umræðu um fjárlög og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar staglast á er að hér hafi sérstök hægri stjórn verið við lýði á undanförnum árum. Hvernig vilja menn nú skilgreina hægri og vinstri? Menn gera það trúlega með mismunandi hætti en eigum við ekki að segja að ef við drægjum úr ríkisútgjöldum og hefðum það að stefnumiði að draga úr ríkisútgjöldum, framlögum til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, gætum við talað um hægri stjórn? En hver er staðreynd mála hér? Frá árinu 1998 til ársins 2006 höfum við hækkað útgjöld til heilbrigðismála um 49% að raungildi, um 27,5 milljarða að raungildi, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Er hér um hægri stjórn að ræða? Hér er ekki um neina hægri stefnu að ræða þegar framlög til heilbrigðismála eru stóraukin.

Á sama árabili, frá árinu 1998 til 2006, eru aukin útgjöld til almannatrygginga, til lífeyrisþega, um 45%, (Gripið fram í.) um 23 milljarða að raungildi. Er hér um hægri stefnu að ræða? (Gripið fram í: Nei, framsóknarstefnu.) Ég segi nei. Við höfum viljað standa vörð um starfsemi undirstöðustofnana í þessu þjóðfélagi og þess vegna hefur núverandi ríkisstjórn stóraukið útgjöld til þessara mikilvægu málaflokka. Þegar við horfum til ársins 2007 er þar ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Framlög til öldrunar-, heilbrigðis-, mennta- og félagsmála eru stóraukin. Meðal annars eru settar 900 millj. aukalega í fjáraukalögum ársins 2006 til öldrunarstofnana í landinu til að gera þeim betur kleift að standa undir rekstri ársins 2007. Margar af þessum stofnunum voru í miklum greiðsluvanda og það var því mikilvægt að leiðrétta stöðu þessara stofnana fyrir árið 2007. Það hefur verið gert. Einnig hafa verið settar 1 þús. millj. aukalega til þess að koma til móts við vanda Landspítala – háskólasjúkrahúss á þessu ári og enn fremur var 120 millj. varið í að koma til móts við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á þessu ári.

Á þessu ári er verið að setja um 2 milljarða sérstaklega í öldrunarheimilin, Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Jafnframt er á næsta ári gert ráð fyrir því að framlög til starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss verði aukin um milljarð og til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um 100 millj., til Háskólans á Akureyri hátt í 80 millj., til Háskóla Íslands um 300 millj. (Gripið fram í.) Síðan segja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að hér sé einhver hægri stjórn við völd þegar ríkisstjórnin vill standa vörð um og efla þær stofnanir sem ég hef talið hér upp.

Reyndar hefur stjórnarandstaðan ekki komið með neinar tillögur um það hvað eigi að gera í menntamálum eða heilbrigðismálum með tilliti til útgjalda. Stjórnarandstaðan hlýtur að vera svona ánægð með núverandi meiri hluta, núverandi meiri hluti leggur mikið í heilbrigðisstofnanir og menntastofnanir en stjórnarandstaðan situr hjá í tillögum sínum. Hún hefur ekki döngun í sér til þess að styðja þær góðu tillögur sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi leggur fram til að standa vörð um þessar undirstöðuþjónustugreinar í samfélagi okkar. Stjórnarandstaðan skilar auðu við þessa umræðu, hæstv. forseti.

Reyndar hefur stjórnarandstaðan komið sér saman um eina tillögu sem er meiri framlög til lífeyrisþega í landinu. Þær hugmyndir eru góðra gjalda verðar. Hins vegar hefur ríkisstjórnin bætt kjör lífeyrisþega. Eins og ég sagði áðan má alltaf gera betur í þeim efnum en það er búið að stórhækka skattleysismörkin, frítekjumark eldri borgara verður 300 þús. og gildistöku þess er flýtt. Það átti ekki að taka gildi fyrr en árin 2008 og 2009. Við munum svo halda áfram á þessari vegferð en við þurfum að setja okkur ákveðinn ramma og ég hef trú á því að með því að reka ríkissjóð eins og við höfum gert á umliðnum árum getum við haldið áfram að bæta kjör lífeyrisþega í landinu. Það er stefnumið ríkisstjórnarinnar.

Kjör lífeyrisþega hafa ekki verið skert eins og margir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið fram. Þau hafa ekki verið skert. Það hafa allir notið kaupmáttaraukningar í samfélaginu og nú hefur það hentað stjórnarandstöðunni að ræða um árið 2006 en ekki árið 2007 þegar talað er um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er sú að frá og með næstu áramótum, eins og ég hef sagt, munu skattleysismörk stórhækka, barnabætur munu hækka um 1,7 milljarða sem mun skila sér sérstaklega til lágtekju- og millitekjufólks. Stjórnarandstaðan sér sér því miður engan hag í því að halda því til haga að það er komið til móts við þá sem minna mega sín. Auðvitað getum við alltaf gert betur eins og ég hef áður sagt en þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og við munum halda áfram á þeirri vegferð.

Hæstv. forseti. Að lokum bendi ég á þá ánægjulegu staðreynd að kaupmáttur íslenskra heimila á árinu 2006 jókst mun meira en forsendur fjárlagaársins 2006 gerðu ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir því að kaupmáttur heimilanna í landinu muni aukast um 5,7% á þessu ári og þá er búið að taka tillit til hækkunar á verðlagi og öllu. Þetta er nettókaupmáttaraukning heimilanna upp á 5,7%. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að kaupmáttur heimilanna í landinu aukist um rúm 5% á næsta ári og í langtímaspá er gert ráð fyrir að kaupmáttur heimilanna aukist um rúm 2% á árinu 2008. Þetta er til viðbótar þeim árangri sem við höfum náð sem þjóð að auka kaupmátt alls almennings. Kaupmáttur hefur aukist um 50–60% frá árinu 1995. Það er engin þjóð sem getur státað af viðlíka árangri.

Ofan á það, eins og ég rakti áðan, gerum við ráð fyrir því að kaupmáttur haldi áfram að aukast á árunum 2007 og 2008. Hæstv. forseti. Útlínur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007 eru skýrar. Við erum að koma til móts við lágtekju- og millitekjufólk, allan almenning, það er verið að lækka álögur á heimilin í landinu, það er verið að lækka skatta. Við erum að setja meira í heilbrigðis-, mennta- og félagsmál og við erum líka búin að gera ríkissjóð nær skuldlausan nettó þannig að við fáum jafnvel vaxtatekjur en greiðum ekki vaxtagjöld og ég minni á það sem ég nefndi áðan um að vaxtagjöld ríkissjóðs samsvöruðu árið 1998 því sem við vörðum til alls menntakerfisins.

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður með það frumvarp sem við vonandi munum afgreiða hér við þessa 3. umr. Von mín stendur til þess að við getum haldið áfram að bæta kjör allra í samfélaginu og standa vörð um öflugar heilbrigðis-, mennta- og velferðarstofnanir. Ég tel að þessu öllu sögðu að við séum á réttri leið sem þjóðfélag. Við tökum stórstígum framförum og lífsgæði Íslendinga almennt eru meðal þess allra besta sem gerist i Evrópu.