133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:22]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fór auðvitað eins og ég óttaðist að hv. þingmaður gat engu svarað um það hvers vegna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu sér ekki til að styðja eina einustu tillögu frá stjórnarmeirihlutanum um aukin fjárframlög til ýmissa stofnana, félagasamtaka og annarra góðra mála. Þess í stað kaus hann í andsvari sínu að tala um eitthvað allt annað, eitthvað sem ég hafði ekki minnst einu orði á. Það liggur auðvitað fyrir, hæstv. forseti, að tekjur ríkissjóðs hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum, m.a. vegna þess að veltuskattar hafa aukist gríðarlega mikið, m.a. vegna framkvæmda í kjördæmi hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar (EMS: Hárrétt, hárrétt.) og líka, hæstv. forseti, má nefna að tekjur af skatti á fyrirtæki og lögaðila hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum þrátt fyrir að tekjuskatturinn hafi verið lækkaður úr 30% í 18%. (Gripið fram í.)

Það sem liggur hins vegar fyrir, hæstv. forseti, er það að stjórnarandstaðan er rúin trausti. Það er búið að afskrifa hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ekki af mér eða öðrum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna, heldur af formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem er búin að afskrifa þennan hv. þingmann. Það er ljótt. (Gripið fram í: Það er ljótt.)