133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:32]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Það fór eins og mig grunaði. Nú hefur hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson belgt sig út í nokkra klukkutíma og þakkar sér nánast allt sem gott hefur verið gert. En hann neitaði að svara einfaldri fyrirspurn um hvort hann hygðist styðja þessa breytingartillögu. Við höfum margoft heyrt þessa ræðu hv. þingmanns um svokallaða Keflavíkurræðu en ég skora á hann, eftir allar skammirnar í dag, að svara þessari einföldu fyrirspurn: Hyggst hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson greiða atkvæði með breytingartillögu minni um hækkun á fjárframlögum til Fjölmenntar, menntunar- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir geðfatlaða og heilaskaðaða? Þar vantar um 12 millj. kr. til að hægt sé að reka námskeið fyrir 100 manns til að aðstoða þetta fólk við að komast áfram í námi eða í vinnu.

Frú forseti, ég óska eftir því að hv. þingmaður svari þessu hátt og snjallt en hætti að belgja sig út og skammast í formanni Samfylkingarinnar.