133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:47]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu, annars vegar um Fjölmennt og hins vegar um starfsþjálfun. Það hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið að nám fyrir geðfatlaða sé í ákveðnu uppnámi. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar varðandi menntun og starfsendurhæfingu fyrir geðfatlaða.

Hjá Fjölmennt hefur því verið haldið fram að þessu verkefni sé sjálfhætt um áramótin ef ekki komi til aukin fjárveiting og er vísað m.a. til þess að í árslok 2004 hafi ríkisstjórnin falið menntamálaráðherra að tryggja þennan rekstur en það hafi ekki gengið eftir.

Hvað erum við hér að tala um? Við erum að tala um samstarfsverkefni Geðhjálpar og Fjölmenntar sem er kallað menntun og endurhæfing, og það er engin spurning að það er full þörf fyrir úrræði af þessu tagi. Þetta er nám sem er mikilvægur hluti endurhæfingar fólks sem hefur misst fótanna á vinnumarkaði eða þurft jafnvel að hætta skólagöngu vegna geðraskana.

Lagalegur réttur geðfatlaðra til endurhæfingar þegar hennar er þörf er alveg ótvíræður, eins og kemur fram í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, en í markmiðsgrein laganna segir að það beri að „tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“.

Varðandi endurhæfingu og stoðþjónustu kemur fram í 8. gr. laganna að það skuli veita „fötluðum þjónustu sem miðar að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra“.

Jafnframt kemur fram í 26. gr. laga um málefni fatlaðra að þeir skuli „njóta félagslegrar hæfingar og endurhæfingar í þeim tilgangi að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni fatlaðra til starfa og þátttöku í daglegu lífi“.

Til hverra taka svo lögin nákvæmlega? Í 2. gr. kemur það skýrt fram en þar segir, með leyfi forseta:

„Sá á rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.“

Það ætti að vera ljóst af þessu, frú forseti, að lagalegur réttur geðfatlaðra til endurhæfingar þegar þess er þörf er ótvíræður.

Eins og ég minntist á áðan er þetta nám hjá Fjölmennt/Geðhjálp í uppnámi. Það vantar, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, 12 millj. til að starfsemin geti haldið eðlilega áfram á næsta ári. Eins og ég hef nefnt hér áður er þetta nám liður í því að hjálpa fólki til að komast aftur út í samfélagið. Margt af þessu fólki væri ella nánast lokað af gagnvart samfélaginu þannig að þetta nám gefur fólki tækifæri til að komast aftur út í lífið. Reynslan sýnir að þetta hefur hreinlega breytt lífi fólks, hvort sem það hefur þá farið út í meiri skólagöngu eða jafnvel alla leið út í atvinnulífið.

Um það snýst þetta að miklu leyti, þ.e. að hjálpa fólki til að komast af örorkubótum og út í atvinnulífið sem ætti að sjálfsögðu að vera markmið okkar allra að vinna að.

Það er rétt að minna á það hér, frú forseti, að í samtali við Morgunblaðið þann 10. október sl. sagðist félagsmálaráðherra leggja mikla áherslu á málefni geðfatlaðra og að hann hygðist beita sér fyrir því að ráðuneytið fyndi í samvinnu við mennta- og fjármálaráðuneytið leið til að tryggja Fjölmennt áframhaldandi rekstrarfé.

En það er þarna eins og svo víða annars staðar að verkefnið skarast á milli þriggja ráðuneyta og það virðist oft því miður vera þannig að það sé nóg til þess að málefni strandi.

Það hefur jafnframt komið fram í fjölmiðlum, frú forseti, að öllum kennurum Fjölmenntar sem hafa séð um þetta sérstaka nám fyrir fólk með geðraskanir og heilaskaða hefur verið sagt upp af þessum sökum. Verður námið því skert verulega um áramót ef ekki kemur til 12 millj. kr. viðbótarfjárveiting á árinu 2007.

Fyrir nokkrum árum sendi Geðhjálp áskorun til ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi þetta verkefni. Þar kom skýrt fram að menntamálaráðherra var falið að tryggja áframhaldandi rekstur verkefnisins en það virðist ekki hafa verið gert.

Seinni breytingartillagan sem ég er með varðar Ekron-starfsþjálfun. Ég fór yfir það hér við 2. umr. fjárlaga hvaða verkefni væru þar í gangi og hversu þýðingarmikil þau gætu verið og skoraði á fjárlaganefnd að taka þau sérstaklega til skoðunar en því miður hefur nefndin ekki séð sér fært að setja þangað hærra framlag en 4 millj. kr. Ársrekstrarkostnaður er áætlaður 72,4 millj.

Um hvað snýst þessi Ekron-starfsþjálfun og endurhæfing? Hún snýst einfaldlega um það að aðstoða óvirka vímuefnaneytendur við að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það er aftur það sama og í hinu tilfellinu, hér er verið að leita leiða til þess að koma fólki af örorkubótum og yfir á vinnumarkaðinn. Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum hve mikill fjárhagslegur sparnaður það gæti orðið fyrir ríkissjóð. Það hefur m.a. verið reiknað út að áætlaður kostnaður vegna örorku einstaklings sem fer á örorku um 32 ára aldur getur verið yfir 100 millj. kr. Þá er ekki tekið tillit til kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu og annarra gjalda sem einstaklingurinn ella hefði greitt, t.d. til lífeyrissjóða.

Eitt er sérstakt við það, frú forseti, að ekki skuli vera gert ráð fyrir hærri fjárveitingu til þessarar starfsþjálfunar, sú staðreynd að í hópi meðmælenda með þessum rekstri eru fjórir ráðherrar sem hafa lýst því yfir að þeir mundu styðja þennan rekstur og telji hann nauðsynlegan, bæði fyrir þessa einstaklinga og fyrir ríkissjóð að sjálfsögðu. Þau eru hæstv. félagsmálaráðherra Magnús Stefánsson, hæstv. heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir, hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason og hæstv. umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz.

Eins og ég sagði áðan snýst þessi starfsþjálfun um að aðstoða öryrkja við að fara af örorku og út á vinnumarkaðinn og ætti því að vera keppikefli okkar allra að styðja við slíka starfsemi.

Rætt hefur verið um að fólki sem verður öryrkjar vegna geðraskana hefur hlutfallslega fjölgað og hluti af því vandamáli er einmitt ungmenni sem hafa verið í vímuefnaneyslu. Því fylgir oft kvíði o.s.frv. og á endanum verða þessir einstaklingar öryrkjar og háðir ríkinu.

Eins og kom fram áðan talaði ég fyrir þessum málum hér við 2. umr. en þau hafa því miður ekki notið náðar fjárlaganefndar og ekki komist á blað þeirra breytingartillagna sem liggja fyrir en ég mun leggja fram hér á morgun við atkvæðagreiðslu um fjárlögin, 3. umr., breytingartillögur í þá veru að styðja þennan rekstur og reikna nú með því, þótt ekki væri nema vegna yfirlýsinga hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar hér í dag, að þetta verði samþykkt, a.m.k. af flokki hans.

(Forseti (JóhS): Forseti hyggst gera hlé á þessum fundi á næstu örfáu mínútum og hv. ræðumaður hefur val um það hvort hann vill ljúka ræðu sinni á næstu 3–5 mínútum eða hefja mál sitt á nýjan leik að loknu matarhléi kl. hálfátta. Ræðumaður getur líka valið um það að finna hentugan stað til að fresta ræðu sinni.)

Ræðumaður á einungis eina mínútu eftir, frú forseti.

(Forseti (JóhS): Þá heldur ræðumaður áfram máli sínu.)

Þakka þér fyrir.

Fyrri breytingartillagan við brtt. 513, a-lið 7. tölul., hljóðar þannig að í stað fjárhæðarinnar 0,9 komi 12,9. Við 9. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða bætist nýr liður, Fjölmennt, menntunar- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir geðfatlaða og heilaskaðaða, með 12 millj. kr. framlagi.

Seinni breytingartillagan við breytingartillögur fjárlaganefndar er þannig að við a-lið 13. tölul. komi í stað fjárhæðarinnar 0,8 69,2. Í 17. yfirliti í sundurliðun óskiptra liða breytist 7. tölul., Ekron-starfsþjálfun, þannig að í stað 4 millj. kr. komi 72,4 millj. kr.

Eins og áður sagði, frú forseti, miðast þær báðar við að fylla upp í það skarð sem ég hef farið hér yfir varðandi Fjölmennt, menntunar- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir geðfatlaða og heilaskaðaða, og Ekron-starfsþjálfun.