133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:11]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Með samþykkt þessa frumvarps til fjárlaga við síðustu umræðu er afgreiddur fjárhagslegur hluti af samkomulagi sem var gert við samtök aldraðra í sumar. Þetta samkomulag — ég mótmæli að það hafi verið eitthvað annað en samkomulag eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. (Gripið fram í: Yfirlýsing.) Í hv. heilbrigðisnefnd kom fram mjög skýrt frá þeim aðilum sem voru mótaðilar aldraðra við undirritun þessa samkomulags að engum þvingunum var beitt og við munum fara nánar í það (Gripið fram í.) þegar það mál kemur til umræðu hér innan tíðar úr heilbrigðisnefnd, til 2. umr.

Á næsta ári, 2007, felur þetta samkomulag í sér auknar greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega sem nema um 5,5 milljörðum kr. en alls verða greiðslur til þessara hópa auknar um tæplega 27 milljarða kr. til ársins 2010. (Gripið fram í.) Þegar upp er staðið hækka greiðslur lífeyristrygginga milli áranna 2006 og 2007 um 10,2 milljarða kr., (Forseti hringir.) úr 32 milljörðum í 42,2 milljarða kr. Ég segi nei.