133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:33]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna umræðna og frétta af Suðurlandsvegi. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með hversu þverpólitísk samstaða hefur náðst, jákvæð og góð, um gildi þess að tvöfalda Suðurlandsveg með aðskildum akreinum. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra í þá veru og finnst ánægjulegt að um jafnmikilvægt verkefni skuli ríkja þverpólitísk samstaða. En þá bregður svo við, virðulegur forseti, að fréttir frá Vegagerðinni sem er nánasti ráðgjafi stjórnvalda um samgöngubætur og samgöngumál stangast dálítið á.

Fyrir rúmu ári sendi framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga formlegt erindi til vegamálastjóra þar sem lagðar voru fram spurningar um áætlaðan kostnað við tvöföldun Suðurlandsvegar austur að Selfossi. Svar barst í júlí 2005 og er mjög sundurliðað, undirritað af svæðisstjóra Vegagerðarinnar fyrir hönd vegamálastjóra, þar sem áætlaður kostnaður er 7–8 milljarðar kr. Nú gerist það að þegar þverpólitísk samstaða hefur náðst um þetta mál, enginn pólitískur ágreiningur, segir vegamálastjóri að kostnaðurinn geti numið allt að 12 milljörðum kr. Það vekur athygli og maður hlýtur að spyrja hvað vaki fyrir Vegagerðinni. Hafa orðið mistök hjá Vegagerðinni? Ekki getur kostnaður við framkvæmd sem er jafn vel sundurliðuð í áætlun í bréfi dags. 11. júlí 2005, þar sem m.a. er vísað til reynslu af tvöföldun Reykjanesbrautar, hækkað um allt að 50%. Þess vegna beini ég því til hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að kveða upp salómonsdóm um það hver raunverulegur eða áætlaður kostnaður við tvöföldun á Suðurlandsvegi kunni að vera.