133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hefur nú lokið við að gera grein fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar í þessu máli á afar greinargóðan hátt. Ég mun reyna í ræðu minni að fara kannski sérstaklega ofan í saumana á réttindamálum starfsmanna sem ég kynnti mér nokkuð ítarlega í umfjöllun menntamálanefndar um málið. Einnig kem ég til með að tæpa á öðrum atriðum í yfirferð minni.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um hefur verið samið um lok þessarar umræðu, eða að minnsta kosti er gert ráð fyrir að henni verði lokið áður en fundur morgundagsins verður settur. Það takmarkar okkur vissulega nokkuð því að nú sem fyrr er málefnaleg andstaða við frumvarpið og fullt tilefni til að fjalla mjög ítarlega um tiltekna þætti málsins.

En úr því ljóst er að málinu verður ekki lokið á þessu haustþingi heldur færist það yfir á næsta ár, árið 2007, þá er öllum ljóst að 3. umr. um málið, sem verður að öllum líkindum í janúar, kemur til með að verða sú umræða sem skiptir sköpum þar sem þingmönnum verður gefinn kostur á að fara ofan í saumana á frumvarpinu og útlista í ítarlegu máli þau ólíku sjónarmið sem um málið gilda.

Hv. þm. Mörður Árnason tók líka af mér ómakið að rekja feril málsins síðastliðin þrjú ár. Hann leyfði sér að kalla þá sögu alla menúettinn um skammstöfunina aftan við nafn Ríkisútvarpsins. Þótti mér það nokkuð vel til fundið og góð líking, að líkja þessu við menúett, sem í sjálfu sér er dans heldra fólksins sem tiplar á tánum í fínu fötunum sínum og gerir það eftir kúnstarinnar reglum. Það er einmitt það sem hin hægri sinnaða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gert varðandi þetta titlatog, þessar skammstafanir aftan við nafn Ríkisútvarpsins. En það má með sanni segja að þar hafi sjónarmið Sjálfstæðisflokksins ráðið og þeirra sem vilja undir niðri leynt og ljóst losa Ríkisútvarpið úr eigu þjóðarinnar og koma því yfir í einkaeign.

Frú forseti. Þetta er gríðarlegt átakamál sem við nú ræðum. Stjórnvöld hafa kosið leið ófriðar um málið allt þetta kjörtímabil. Hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur rekið það af miklu harðfylgi og ósveigjanleika. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar mælt með því að menn settust yfir það og reyndu að ná einhverjum sáttum og málamiðlunum en ekki hefur verið vilji til þess á stjórnarheimilinu. Framsóknarflokkurinn hefur dinglað með Sjálfstæðisflokknum í málinu þrátt fyrir gríðarlega óánægju einstakra dyggra manna Framsóknarflokksins, meira að segja manna sem gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og nægir að nefna Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sem hefur lýst yfir andstöðu við inntak frumvarpsins.

Það hafa Samtök ungra framsóknarmanna sömuleiðis gert. Samtök ungra framsóknarmanna hafa sent frá sér ályktun varðandi málið og lýst andstöðu við megininntak þess, þ.e. hlutafélagsvæðinguna. Og það er alveg ljóst að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins, af því að Framsóknarflokkurinn á Alþingi hefur lyppast niður, ákveður að skella skollaeyrum við andstöðunni í eigin flokki og dingla aftan í Sjálfstæðisflokknum hvað þetta varðar.

Við í stjórnarandstöðunni segjum. Ja, verði honum að góðu. En það er nú kannski ekki búið að bíta úr nálinni með þessa fylgispekt Framsóknarflokksins. Við spyrjum að leikslokum í þeim efnum.

Ég get lýst því yfir að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum eins og Samfylkingin sett fram ítarlega stefnu um það á hvern hátt við viljum sjá Ríkisútvarpið. Við höfum lagt fram frumvarp á Alþingi oftar en einu sinni til að útlista þau sjónarmið okkar. En það er algerlega á hreinu að hugmyndir okkar fara ekki saman við hugmyndir ríkisstjórnarinnar þó svo að þær geri ráð fyrir grundvallarbreytingu á ýmsu er varðar Ríkisútvarpið.

Hugmyndir okkar gera ráð fyrir breytingu á stjórnsýslu og t.d. má nefna breytingu á tilhögun útvarpsráðs. Hugmyndir okkar ganga út á að það verið lagt niður í núverandi mynd. Sömuleiðis að breytt verði skilgreiningu gjaldstofnsins, þ.e. að það verði áfram afnotagjöld, en stofn afnotagjaldsins verði fasteign en ekki viðtæki.

Við erum með ákveðnar hugmyndir varðandi skilvirkari stjórnsýslu og rekum þá til föðurhúsanna öll þau sjónarmið stjórnarmeirihlutans um að ekki sé hægt að reka fyrirtækið eða stofnunina á lipran eða sveigjanlegan hátt öðruvísi en að breyta því í hlutafélag. Við pípum á slíkt hjal og höfum í hugmyndum okkar lagt fram málefnalegar og rökstuddar tillögur um hvernig megi gera stjórnsýslu stofnunarinnar skilvirkari þó svo að hún verði áfram ríkisstofnun.

Hugmyndir okkar ganga sömuleiðis út á virkara aðhald almennings, þátttöku starfsmanna, kraftmikla og öfluga þátttöku starfsmanna í stjórn og síðast en ekki síst að kjör og réttindi starfsmanna séu tryggð til frambúðar.

Virðulegi forseti. Ákvörðun ríkisstjórnarmeirihlutans um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er og jafngildir í okkar huga ákvörðun um einkavæðingu. Ég mun nú leyfa mér að rökstyðja það sjónarmið okkar með því að vitna í og fá að lesa hér, með leyfi forseta, grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 2. desember síðastliðinn eftir Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann en sú grein hefur einmitt yfirskriftina Einkavæðing Ríkisútvarpsins. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Fyrir þinginu liggur nú frumvarp menntamálaráðherra um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ef frumvarpið verður að lögum verður þar með ákveðið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins. Í þessu varðar öngvu hver eignaraðild hins nýja félags verður heldur hitt að starfsemin verður eftir að Ríkisútvarpið ohf. tekur við henni ekki framar opinbers réttar eðlis heldur einkaréttar eðlis. Þannig færist starfsemin af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar. Í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar sem í gildi er á Íslandi hefur þessi formbreyting úrslitaáhrif að því er varðar alla réttarstöðu starfseminnar. Þetta er höfuðmálið en ekki það hvernig eignarhaldi hins nýja hlutafélags er háttað. Í þessari einkavæðingu felst m.a. að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki framar um starfsemina og marka því ekki lengur réttarstöðu starfsmannanna. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki framar til starfseminnar og stjórnendur hins nýja hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur hlutafélaga bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga í sýslan sinni. Starfsemin hefur þá verið einkavædd, flutt á svið einkaréttar og réttarstaðan sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði.

Af einhverjum ástæðum hafa flutningsmenn tillagna um einkavæðingu Ríkisútvarpsins kosið að nefna tillögur sínar ekki réttum nöfnum. Reynt er að færa einkavæðinguna í búning sem er til þess fallinn að villa um fyrir þjóðinni. Þannig er talað um hlutafélagavæðingu (eins og það sé ekki einkavæðing) og mikið úr því gert að óheimilt verði að selja fyrirtækið. Það atriði skiptir þó harla litlu máli þegar grannt er skoðað. Meginatriðið er það að verði frumvarpið að lögum mun Ríkisútvarpið færast yfir á svið einkaréttar. Starfsmenn þess munu ekki framar njóta þeirrar ráðningarfestu sem þeir hafa notið sem opinberir starfsmenn og stofnunin mun starfa eftir sömu leikreglum og aðrir einkaaðilar.

Vandséð er hvernig Ríkisútvarpið getur til langframa varið sig gagnvart kröfum keppinauta um takmörkun eða afnám ríkisstyrkja sem því er ætlað að njóta í formi nefskatts. Við blasir að ákaflega erfitt verður að rökstyðja ríkisframlag sem ætlað er að standa undir svo stórum hluta rekstrarútgjalda fyrirtækisins sem hér virðist gert ráð fyrir. Að slíku framlagi sé aðeins varið til þess hluta starfseminnar sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk þess. Þetta munu keppinautar Ríkisútvarpsins fyrr eða síðar láta reyna á fyrir samkeppnisyfirvöldum og dómstólum. Ég óttast því að með frumvarpi menntamálaráðherra sé enn ekki fundinn réttur farvegur til framtíðar fyrir Ríkisútvarpið.“

Frú forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tökum undir hvert einasta orð sem ég las úr grein Ástráðs Haraldssonar. Sannleikurinn er sá að hér er um einkavæðingu að ræða með því að stofnunin er tekin úr opinberum rétti og sett inn í einkarétt. Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum en hætta að fela sig á bak við háeffun eða oháeffun. Það gæti allt eins staðið KFUM, eins og hv. þm. Mörður Árnason vitnaði til orða útvarpsstjóra áðan. Verið er að einkavæða Ríkisútvarpið með því að setja það inn á svið einkaréttar. Mér finnst þessi stutta og hnitmiðaða grein vera þess eðlis að hún segi nánast allt sem segja þarf í þessum efnum.

Sömuleiðis er ljóst af þessari gjörð að oháeffunin er í sjálfu sér ávísun á endalausar kærur og klögumál fyrir samkeppnisyfirvöldum og fyrir dómstólum. Kunnara er en frá þurfi að segja og raunar hafa verið gefnar út yfirlýsingar um það af þeim sem standa í einkareknum fjölmiðlarekstri að það verði látið reyna á þetta og hitt í þessum lögum. Alkunna er frá Evrópu að mjög mikil átök hafa staðið á milli fjölmiðla, einkarekinna og ríkisrekinna, á síðustu árum og engin ástæða er til að ætla annað en slík átök komi til með að endurspeglast í samfélagi okkar.

Þann 17. júní í sumar birtust í Lesbók Morgunblaðsins athyglisverð grein eftir Elfu Ýr Gylfadóttur undir titlinum: Er það hlutverk Ríkisútvarps að sýna Aðþrengdar eiginkonur? Elfa er ein af okkar vel menntuðu fjölmiðlafræðingum og hefur í starfi sínu með fjölmiðlanefndinni hinni síðari komið ýmsum mjög gagnlegum sjónarmiðum á framfæri. Það gerir hún nú í menntamálaráðuneytinu þar sem hún starfar sem sérfræðingur. Í þeirri grein sem Elfa skrifar í Lesbókina gerir hún einmitt að umfjöllunarefni átökin á milli einkarekinna fjölmiðla og ríkisrekinna. Hún segir í greininni að einkamiðlar hafi gagnrýnt ríkisfjölmiðla fyrir óhagræði í rekstri, misnotkun á almannafé og fyrir að höfða aðeins til afmarkaðrar menningarelítu í dagskrárstefnu sinni. Þó segir Elfa að gagnrýni hinna einkareknu fjölmiðla hafi verið að breytast því að í skýrslu sem hún nefnir til sögunnar, sem gefin var út á árinu 2004 sem ýmis samtök einkarekinna fjölmiðla í Evrópu létu gera, eru ríkisfjölmiðlarnir gagnrýndir fyrir að hafa náð of miklum árangri á markaði og að þeir hafi náð of sterkri stöðu á markaðnum og jafnvel misnoti hana.

Í opinberri umræðu víða í Evrópu hefur þess gætt að forsvarsmenn einkareknu fjölmiðlanna hafa lagt mikið upp úr því að almannaþjónustuhlutverkið verði skilgreint þannig út í hörgul að óyggjandi sé hvað heyri þar undir og þeir hafa viljað að það sé skilgreint mun þrengra en nú er og mun þrengra en gert er ráð fyrir að það verði skilgreint hér eftir fyrirhugaðar breytingar, nái þær fram að ganga, því að samkvæmt 3. gr. frumvarpsins sem við fjöllum um má segja að almannaþjónustuhlutverkið sé nokkuð vítt skilgreint. Í mínum huga skortir reyndar talsvert mikið upp á að sagt sé í 3. gr. á hvern hátt menn ætli að tryggja að þessi skilgreining nái fram að ganga í rekstri Ríkisútvarpsins.

Í Evrópu hafa einkamiðlarnir farið mikinn til að reyna að þrengja þetta almannaþjónustuhlutverk og, frú forseti, það sama mun auðvitað gerast hér og þegar er farið að örla á því. Við blasir að einkareknu fjölmiðlarnir koma til með að halda í herferð núna um að hlutverkið samkvæmt 3. gr verði þrengt til verulegra muna.

Elfa Ýr Gylfadóttir gerir grein fyrir gagnrýni á skírskotun og samsvörun til gagnrýninnar sem er hér á okkar eigin markaði. Elfa segir í grein sinni að við gagnrýni af þessu tagi á efnistöku og dagskrá ríkisfjölmiðlanna í Evrópu bætist gagnrýni einkamiðlanna á hina nýju þjónustu sem ríkisfjölmiðlarnir eru farnir að veita í auknum mæli, þ.e. þá þjónustu sem stafræna umhverfið gerir miðlunum kleift að veita. Nú eru fjölmiðlafyrirtæki og ekki hvað síst sterku og stóru Evrópuríkismiðlarnir búnir að leiða þær breytingar sem átt hafa sér stað varðandi tækniþróun á þeim markaði, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi en ekki síst sjónvarpi. Nú eru þessir miðlar að hverfa frá hliðrænni útsendingu og eru komnir með stafræna útsendingu og eru þar með farnir að eiga möguleika á gagnkvæmri miðlun, þ.e. samskiptum við notendurna þar sem allir möguleikar þessarar gagnvirku þjónustu eru nýttir út í hörgul. Það fer að styttast í að mörkin milli sjónvarps, farsíma og tölvu verði sáralítil og nánast engin. Þetta býður auðvitað upp á gríðarlega mikla möguleika sem Evrópufjölmiðlarnir hafa tekið þátt í að leiða breytingar á og ég sé ekki annað en Ríkisútvarpið þurfi að taka þátt í þeirri samkeppni og þeirri þróun sem er að eiga sér stað. Ég hefði haldið að það væri þá mun snjallara og réttara í okkar litla samfélagi, okkar þrönga málsamfélagi, að gera þetta undir handarjaðri hins opinbera, þ.e. með fyrirtæki í þjóðareigu en ekki í því lokaða umhverfi sem oháeffunin leiðir til samkvæmt því frumvarpi sem við nú ræðum.

Elfa Ýr Gylfadóttir segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Einkareknu sjónvarpsstöðvarnar í Evrópu hafa margar hverjar kært ríkisfjölmiðlana og telja að þeir eigi að einbeita sér að útsendingum í hljóðvarpi og sjónvarpi og eigi ekki að útvíkka starfsemi sína og hefja samkeppni í nýmiðlun og gagnvirkri þjónustu. Þar sem ríkisfjölmiðlar bjóða alls kyns gagnvirka þjónustu frítt gerir það einnig einkamiðlunum erfitt fyrir að taka gjald fyrir slíka þjónustu.“

Af því að ég hef haft auga á þessari grein Elfu Ýrar finnst mér alveg ljóst að hún er að lýsa umhverfi sem meiri líkur eru á að fari úr böndunum eða einkamiðlarnir notfæri sér ef við förum út í þær breytingar sem lagðar eru til. Við eigum síður von á slíkum átökum, held ég, ef við höldum Ríkisútvarpinu sem opinberri stofnun og meiri líkur eru á að okkur takist að standa vörð um þá réttarhefð sem er til staðar ef við höldum áfram að skilgreina útvarpið undir opinberar réttarheimildir en förum ekki með það út í hinar einkaréttarlegu skilgreiningar.

Hér takast auðvitað á ólík sjónarmið. Annars vegar samkeppnissjónarmið og viðskiptasjónarmið, sem haldast í hendur, og hins vegar ákveðin sjónarmið menningarlegs eðlis og lýðræðislegs eðlis. Við höfum í fjölmiðlaskýrslunni okkar gagnmerku langan kafla um á hvern hátt þurfi að standa vörð um menningarefni og menningarframleiðslu á ljósvakanum, bæði í sjónvarpi og útvarpi, og ekki hvað síst höfum við ákveðnum skyldum að gegna varðandi lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Þá finnst mér afar mikilvægt að þeirri lýðræðislegu umræðu sé fyrir komið í fyrirtæki sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera opinbert fyrirtæki og skilgreint undir opinberum rétti fremur en slíkt sé gert á einkaeignarréttarlegum forsendum. Þessi sömu sjónarmið eru til staðar í Evrópu og lýsir Elfa Ýr Gylfadóttir því afar vel í grein sinni og hún segir, með leyfi forseta:

„Fyrra sjónarmiðið lýsir sér í þeirri kröfu að ríkisfjölmiðlar noti ekki ríkisstyrki til að fjármagna þjónustu í samkeppnisrekstri. Þetta er eðlileg krafa samkeppnisaðila á markaði sem eiga erfitt með að keppa við stór fyrirtæki eða stofnanir eins og ríkisfjölmiðlar eru á heimamarkaði. Þá þurfa stjórnvöld að horfa til ríkisstyrkjareglna Evrópusambandsins og skoða fjölmiðlastarfsemina út frá viðskipta- og samkeppnissjónarmiðum.

Síðara sjónarmiðið birtist í einlægum vilja ráðamanna í Evrópu til að viðhalda ríkisfjölmiðlunum út frá menningarpólitískum sjónarmiðum. Ríkisfjölmiðlarnir gegna mikilvægu hlutverki með því að miðla þjóðlegri menningu, tungu og menningararfi. Þá gegnir hlutlæg fréttaumfjöllun og sjálfstæði ritstjórna veigamiklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu í Evrópu. Ef almannaþjónustuhlutverk ríkisfjölmiðlanna verður skilgreint of þröngt og þeir fá ekki tækifæri til að nýta nýja tækni og höfða til yngri kynslóðarinnar er framtíð ríkisfjölmiðlanna ekki björt. Ef almannaþjónustuhlutverkið er skilgreint of vítt kann það að hafa neikvæð áhrif á einkarekna fjölmiðla og skaða samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Enn er óvíst hvert stefnir.

Hér á landi er Ríkisútvarpið til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og yfirvöld þurfa nú að afmarka almannaþjónustuhlutverk stofnunarinnar í nýju lagafrumvarpi.“

Það hafa þau gert og við í menntamálanefnd Alþingis Íslendinga fengum ekki að senda Eftirlitsstofnuninni málið til umfjöllunar, eða reyndar til Evrópuráðsins vildum við nú heldur senda það, vegna þess að formaður menntamálanefndar taldi enga hefð fyrir því að leita álits á frumvörpum af þessu tagi hjá Evrópustofnun.

Það á eftir að skoða margt í þessu máli, virðulegi forseti, annað en Evrópusjónarmiðið og þróunina úti í Evrópu. Við höfðum í sjálfu sér lítið svigrúm til að ræða málin í menntamálanefnd. Það má segja að einn fundur okkar hafi farið í umræður. Að öðru leyti var rætt við gesti sem var auðvitað gagnlegt og margt sem rak á fjörur okkar í þeim viðtölum. En eiginleg átök um sjónarmiðin fengu ekki mikið rými í menntamálanefnd þannig að ég horfi til þess tíma þegar menntamálanefnd kallar málið aftur inn, á milli 2. og 3. umr., og gerir ráð fyrir að á þeim tíma gefist viðbótartími til að skoða ákveðna þætti málsins sem hafa ekki endanlega verið skýrðir.

Varðandi starfsmenn og réttindamál þeirra, virðulegi forseti, þá er kafli í minnihlutaálitinu sem skýrir á nokkuð greinargóðan hátt með hvaða hætti réttindi starfsmanna eru í uppnámi við þessar breytingar. Það verður að segjast eins og er að það er ámælisvert en okkur berast til eyrna fréttir af því að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu að hluta til byrjaðir að vinna eftir þessu frumvarpi þótt það sé alls ekki orðið að lögum frá Alþingi. Við höfum fengið upplýsingar um það og reyndar hafa komið upplýsingar um það opinberlega að ráðningarform fólks til Ríkisútvarpsins sé þannig að farið sé að gera einkasamninga, lokaða leynisamninga, um kaup og kjör einstakra starfsmanna. Þar af leiðandi er hafin þróun sem kemur til með að verða óhjákvæmileg nái þetta frumvarp fram að ganga, þ.e. að launabilið á milli starfsmanna er farið að breikka. Það á bara eftir að halda áfram. Eins og fram kemur í nefndarálitinu viðurkenndi Páll Magnússon útvarpsstjóri fyrir menntamálanefnd að slíkt mundi eflaust gerast, það væri fylgifiskur þeirra breytinga sem lagabreytingin hefði í för með sér. Hann dró ekki dul á það. Ég tel að vert sé, jafnt fyrir starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu sem okkur sem höfum viljað standa vörð um kaup og kjör fólks á almennum markaði og hjá hinu opinbera, að sperra eyrum og gefa gaum að orðum útvarpsstjóra þegar hann segir að hinir frjálsu samningar, sem taka munu við af kjarasamningum opinberra starfsmanna, þegar þeir samningar renna út að tveimur árum liðnum, muni það að öllum líkindum auka launabilið á milli starfsmanna. Útvarpsstjóri sagði að með slíkum frjálsum samningum kynnu starfsmenn að geta tekið ákvarðanir um að selja kauphækkanir gegn réttindum eða öfugt, að selja réttindi sín fyrir kauphækkanir. Það er ljóst að eftir að tvö ár eru liðin mun samið á nýjum nótum, nýjum forsendum, við starfsmenn. Þar gilda ekki kjarasamningar opinberra starfsmanna eða þær reglur sem við höfum komið okkur saman um að eðlilegt sé að gildi um starfsmenn í opinberri þjónustu.

Við í minni hlutanum vitnum til umsagnar frá BSRB og BHM sem sendu okkur sameiginlega umsögn um málið. Umsagnir þessara aðila fara ítarlega í gegnum réttindamálin. Það gerir einnig umsögn stjórnar samtaka starfsmanna Ríkisútvarpsins um frumvarpið en þeirri umsögn fylgir samantekt sem gerð er af Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanni þann 23. október 2006 í tilefni af framlagningu þessa frumvarps.

Lára V. Júlíusdóttir tekur undir öll meginatriðin í umsögn BHM og BSRB en þar er stiklað á aðalatriðum málsins, þ.e. að núverandi starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu hætti að vera starfsmenn ríkisins og verði þess í stað starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Það er eðli málsins samkvæmt óeðlilegt, frú forseti, vegna þess að ríkið ber áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. Þar af leiðandi breytist ekkert eðli þessara starfa. Ríkisútvarpið sinnir áfram svipuðu hlutverki og það sinnir í dag og óeðlilegt að skilgreina störf starfsmannanna á annan hátt heldur en gert er í dag. Það undirstrikar sjónarmið okkar sem erum mótfallin því að frumvarpið nái fram að ganga og Ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag. Við segjum fullum fetum að slíkt varði rétt starfsmanna til að fá að halda áfram að vera opinberir starfsmenn, enda varða lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins bæði réttindi starfsmanna en ekki síður skyldur vegna þess að eðli starfsins er annað heldur en á opinberum markaði. Þar af leiðandi falla niður réttindi á borð við andmælarétt og áminningarskyldu, skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn, auglýsingaskyldu á lausum störfum, aðgangi almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrest og þagnarskyldu og þannig mætti áfram telja, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans.

Það er ljóst að stéttarfélögin sem um ræðir verða ekki samningsaðilar hins nýja félags. Stéttarfélögin sem munu semja um kaup og kjör starfsmanna heyra undir lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnar frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og reglur um verkföll starfsmanna. Segja má að núgildandi kjarasamningur komi til með að gilda þangað til nýr samningur verður gerður. Það er allsendis óljóst hvað kemur til með að verða innifalið í honum af þeim réttindum eða þeim skyldum sem starfsmenn Ríkisútvarpsins gegna í dag. Það eru ákveðin vafaatriði uppi um ávinnslu réttinda hjá Ríkisútvarpinu ohf. og óvíst hvernig tekst til að semja um sambærileg réttindi þegar nýr kjarasamningur verður gerður við Ríkisútvarpið ohf. Í síðasta mánuði gaf útvarpsstjóri út yfirlýsingu á fundi með starfsmönnum Ríkisútvarpsins um að öll réttindi starfsmanna mundu haldast en þegar hann, í annarri eða þriðju heimsókn sinni til menntamálanefndar, var spurður um þá yfirlýsingu kom auðvitað í ljós að hann hafði hvorki umboð eða möguleika á að gefa nokkra yfirlýsingu sem næði lengra en til tveggja ára, þ.e. til þeirra tveggja ára sem eftir eru af gildandi kjarasamningi. Varðandi áframhaldandi réttindi gat útvarpsstjóri ekki sagt nokkurn skapaðan hlut en hann gaf vilyrði fyrir því að það væri vilji til þess að þeir sem nú eru með réttindi til í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fengju áfram að vera í A-deild lífeyrissjóðsins.

En hvað með lífeyrisrétt starfsmanna í B-deild? Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum þeirra. Iðgjöld B-deildarinnar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafa miðast við laun viðkomandi í dag og sé staða viðkomandi starfsmanns lögð niður þá breytast iðgjaldsreglurnar til samræmis við meðalbreytingar á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, þ.e. það verður einhvers konar frysting á laununum og hækkun launa starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu ohf. mundi engin áhrif hafa á eftirlaun starfsmannsins þegar hann lætur af störfum vegna aldurs. Þar verður ákveðin frysting á réttindum sem starfsmaðurinn vinnur sér inn en fær ekki notið í eftirlaunum.

Sett er sérákvæði í frumvarpið um takmörkun á rétti starfsmanna til töku lífeyris úr B-deild LSR samhliða starfi. Það sérákvæði er ekki í samræmi við það sem almennt gildir í dag og má nefna að fjölmargir sjóðfélagar í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eiga rétt á töku lífeyris úr B-deild samhliða starfi. Þarna er um upptöku réttindi að ræða sem er grafalvarlegt mál og fullkomlega óeðlilegt að ganga á rétt fólks með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það kemur skýrt fram í umsögn BHM og BSRB að að mati þessara félaga sé eina leiðin, til að tryggja óbreytt réttindi starfsmanna og að þau haldist með sama hætti og þau eru nú, að rekstrarformsbreytingin nái ekki fram að ganga. Að öðrum kosti vilja þessi samtök að það verði orðað skýrt í bráðabirgðaákvæði 2 í frumvarpinu hvaða réttindi menn eiga við aðilaskiptin og BHM og BSRB eru með tillögu um nýtt bráðabirgðaákvæði í umsögn sinni sem tekur á því. Þar er gert ráð fyrir að RÚV ohf. taki við gildistöku laganna yfir skyldu vinnuveitenda gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins að öllu leyti og þannig haldi þeir óbreyttum réttindum samkvæmt lögum, kjarasamningum og ráðningarsamningum. Starfskjör, réttindi og ávinnsla réttinda muni halda áfram hjá hlutafélaginu eins og um samfellda ráðningu hjá sama vinnuveitanda verði að ræða. Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem njóti biðlaunaréttar samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, samanber 34. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, missi ekki rétt til biðlauna við gildistöku laganna þótt þeir afþakki boð um starf hjá Ríkisútvarpinu ohf. Eftir gildistöku laganna skuli starfsmönnum sem rétt eiga til biðlauna veittur umþóttunartími í þrjá mánuði til að taka afstöðu til þess hvort þeir taki boði um starf hjá Ríkisútvarpinu ohf. eða neyti biðlaunaréttar síns, við lok þriggja mánaða tímabilsins ef viðkomandi kýs að halda ekki áfram störfum.

Sömuleiðis eru BHM og BSRB með hugmyndir um að í bráðabirgðaákvæðinu þyrfti að orða með skýrum hætti rétt núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins um að þeir eigi rétt til áframhaldandi aðildar að þeim sjóði sem og allir starfsmenn sem ráðnir verða hjá RÚV ohf., en það er eitt sem þarf að tryggja, þ.e. nýráðningar, að réttindi starfsmanna sem ráðnir eru til hins nýja félags, jafnvel á þeim tíma sem kjarasamningurinn sem nú er í gildi gildir, fái svipuð réttindi eða sambærileg og starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa í dag. Það er auðvitað enginn vilji til þess hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins eða hjá stjórnvöldum. Vilji manna stendur til að ná fram ákveðinni hagræðingu í gegnum möguleika á að greiða fólki lægri laun og sjá til að réttindagreiðslur verði lægri. Það er beinlínis innbyggt í hagræðingarhugmyndir stjórnvalda og stjórnenda Ríkisútvarpsins eins og kemur fram í gögnum sem menntamálanefnd hafði til umfjöllunar þegar fjallað var um málið.

Það þyrfti líka að orða skýrt á hvern hátt starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. ættu rétt á að vera félagsmenn í stéttarfélögum sem lögum samkvæmt eiga rétt á að gera kjarasamninga við Ríkisútvarpið ohf. Hugmyndir BHM og BSRB ganga einnig út á að setja þurfi inn bráðabirgðaákvæðið að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., það sé afar óljóst að hvaða leyti ákvæði þeirra gildi um hið nýja félag.

Þegar öllu er á botninn hvolft óska þessi stóru launþegasamtök þess eins að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga enda sé um upptöku starfstengdra réttinda að ræða sem ósvinna sé að samþykkja á Alþingi.

Í umsögn Félags fréttamanna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. er farið ofan í þessi sömu atriði, þ.e. kjaramálin eru ofarlega í huga starfsmanna. En það er ekki síður mikilvægt að fréttamenn gefa okkur ákveðna leiðsögn varðandi fagleg atriði og eru með afar beinskeytta gagnrýni á frumvarpið út frá faglegum sjónarmiðum. Félagið leggur áherslu á að í þessari 3. gr. frumvarpsins þar sem almannaþjónustuhlutverkið er skilgreint verði kveðið með skýrum og ótvíræðum hætti á um að meðal þeirra skyldna sem Ríkisútvarpið eigi að axla sé að starfrækja almenna, víðtæka, sjálfstæða og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni á hljóðvarps- og sjónvarpsformi, en þessa atriðis sér ekki með skýrum hætti stað í frumvarpinu eins og það er nú, segja fréttamennirnir. Félagið leggur til að ákvæði þessa efnis verði bætt við frumvarpstextann til þess að tryggt sé að hugmyndin sem hér er að baki nái fram að ganga og verði viðhöfð þegar og ef til þess kemur að Ríkisútvarpið ohf. líti dagsins ljós.

Félag fréttamanna leggur líka áherslu á að áfram verði starfandi að minnsta kosti tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir hjá Ríkisútvarpinu, annars vegar fréttastofa útvarps og hins vegar fréttastofa sjónvarps og að þess verði getið með skýrum hætti í frumvarpinu. Einnig segja félagar í Félagi fréttamanna að tvær ritstjórnir með þessum hætti séu nauðsynlegar til þess að viðhalda fjölbreytni og samkeppni á fjölmiðlamarkaði, sér í lagi í ljósvakamiðlunum þar sem eignarhald er ekki fjölbreytt eins og staðan er nú. Þá tryggir það tæknilega að auki mun hnitmiðaðri umfjöllun á fréttaþjónustu, að önnur ritstjórn sinni útvarpi og hin sjónvarpi. Undir þetta sjónarmið skal tekið hér, virðulegi forseti.

Félag fréttamanna vill líka að kveðið verði á um það í frumvarpinu að af þess hálfu verið reknar að lágmarki tvær útvarpsrásir og ein sjónvarpsrás enda séu forsendur fyrir Ríkisútvarpinu sem sterkum fjölmiðli brostnar ef einhver þessara rása yrði skilin frá eða lögð niður. Undir þetta sjónarmið skal líka tekið hér.

Félagið leggur áherslu á að aðgengi almennings í landinu að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi verði tryggt og að almenningur geti haft áhrif og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið. Kveða verði skýrt á um þetta aðgengi í lögum og sama gildir um upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans, segir í bréfi fréttamanna til nefndarinnar.

Félag fréttamanna vill að fulltrúi starfsmanna komi að stjórn fyrirtækisins. Það er samhljóða hugmyndum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem ég gerði grein fyrir hér áðan og er auðvitað afar mikilvægt að á 21. öldinni verði ekki látið vitnast að hér sé sett á laggirnar öflugt og kröftugt fyrirtæki af því tagi sem hér um ræðir án þess að starfsmenn hafi nokkra aðkomu að stjórn eða rekstri þess.

Félag fréttamanna leggur líka áherslu á að ákveðnir eldveggir verði viðhafðir innan fyrirtækisins til að verja sjálfstæða umfjöllun. Í því sambandi nefnir félagið nokkur atriði. Í fyrsta lagi það að tryggja þurfi í frumvarpstextanum sjálfstæði fréttaritstjórna gagnvart útvarpsstjóra og markaðsdeild og annarri þeirri starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. sem á sitt undir auglýsingum og kostendum til efnis.

Það gefur augaleið hvers vegna fréttamennirnir telja þetta mikilvægt. Það skyldi þó ekki vera að ástæða sé til þess orðin hér á landi að óttast að íhlutun stórfyrirtækja eða fjársterkra aðila sé farið að gæta í fréttaflutningi fjölmiðla hér á landi. Ég tel afar nauðsynlegt að reistir séu eldveggir af þessu tagi því við verðum að tryggja að hér njóti að minnsta kosti einn fjölmiðill á ljósvakanum fullkomins sjálfstæðis fréttaritstjórnanna og að ekki verði um nokkra möguleika til íhlutunar að ræða.

Sömuleiðis vilja fréttamennirnir að það verði tryggt við ráðningar og launaákvarðanir fréttamanna að farið sé að faglegum sjónarmiðum. Fréttamennirnir mótmæla launaleynd, vilja að forsendur launa og launagreiðslna séu öllum ljósar, vilja sömuleiðis að fréttamenn gangi undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir og telja að stjórnsýslulögin og meginreglur stjórnsýsluréttar mundu nægja til þess að fullnægja slíkum þáttum verði þær látnar gilda um hið opinbera hlutafélag, enda veiti þau lög og þau lagaákvæði ákveðin réttindi að því er þessi atriði varðar.

Að lokum nefnir Félag fréttamanna að tryggja þurfi Ríkisútvarpinu ohf. örugga tekjustofna. Fréttamenn telja með öðrum orðum ekki þær hugmyndir sem eru í frumvarpinu nægilega öruggar fyrir Ríkisútvarpið sem tekjustofn.

Ég hef getið um það hér í fyrri ræðum mínum um þetta mál að það sé afar mikilvægt að afnotagjöldin haldi og verði áfram við lýði því ég tel að hið beina samband neytenda við Ríkisútvarpið megi tryggja með þeim hætti að neytendur og notendur greiði afnotagjald þó svo að hægt að sé að hugsa sér þetta sem við höfum lagt til í Vinstri grænum, að gjaldið sé tengt fasteignum en ekki viðtækjum, enda er sú tenging kannski barn síns tíma. En það er leitt að það skuli ekki hafa verið skoðað í menntamálanefndinni hvorki nú né endranær hvernig mætti hugsa sér að koma upp slíkri tengingu, þ.e. tengingu afnotagjaldsins við fasteign. Slíkt hefur verið gert erlendis og sannarlega er full ástæða til þess að skoða reynsluna af því áður en rasað er um ráð fram í þessum efnum og farið í þessa nefskattshugmynd sem hér er gert ráð fyrir. Nefskatturinn var ekki heldur sérstaklega til umfjöllunar hjá menntamálanefnd. Við fengum hins vegar á síðasta ári umsögn frá ríkisskattstjóra sem er mjög gagnrýninn á þessa hugmynd um nefskattinn. Ég mun kannski fara síðar í ræðu minni, virðulegi forseti, aðeins á saumana á þeirri umsögn.

En til að ég ljúki nú umfjölluninni um hugmyndir Félags fréttamanna á þessu faglega sviði þá segja fréttamennirnir að starfssvið útvarpsstjóra sé ekki skýrt samkvæmt frumvarpinu og tekið skal undir það hér. Fréttamennirnir vitna í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins um útvarpsstjóra þar sem segir að í samþykktum félagsins megi nánar skilgreina starfssvið hans. En að mati félagsins er réttara að gera það strax í frumvarpstextanum sjálfum.

Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins, segja fréttamennirnir, að útvarpsstjóri sé æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum Ríkisútvarpsins ohf. en ef starfssvið útvarpsstjóra er ekki skilgreint þá getur það valdið því að sjálfstæði fréttaritstjórna sé nákvæmlega jafnmikið eða jafnlítið og útvarpsstjóri ákveður hverju sinni. Þetta er sjónarmið sem vert er að taka tillit til og hefði sannarlega verðskuldað eins og einn snúning í umræðunni í menntamálanefnd.

Þá að lokum varðandi afnotagjöldin telur Félag fréttamanna bestu leiðina til að fjármagna Ríkisútvarpið vera afnotagjöld og er það í takt við það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til. Það er engin krafa af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að leggja afnotagjöldin niður. Við þekkjum það í ríkisútvörpum víða um Evrópu að þau hafa haldið sig við þessa fjármögnunarleið og hún hefur gefist vel. Jafnvel þó hún sé dýr í innheimtu þá hefur það samt sem áður sýnt sig að hún skilar sér nokkuð vel og ekkert verr en nefskattur mundi gera.

Kostnaður við innheimtudeildina er hluti af hagræðingunni sem stjórnvöld sjá fyrir sér við þessar breytingar. En það kom fram í máli útvarpsstjóra þegar hann heimsótti nefndina að sparnaðurinn við að koma á nefskattskerfinu mundi verða um 90 millj. kr. á ári. Þar hefur hann í huga kostnaðinn við að reka innheimtudeildina og einhverja útfærslu á því.

En ég vil nú meina að þó sá kostnaður sparist kannski hjá Ríkisútvarpinu þá komi hann bara til með að færast yfir á ríkisskattstjóra eða skattstjórana í landinu sem þurfa að taka við þeirri innheimtu sem innheimtudeild Ríkisútvarpsins hefur hingað til annast. Finnst mér það mikil skammsýni af stjórnarmeirihlutanum að sjá það ekki í hendi sér að hér er einungis um tilfærslu kostnaðar að ræða en ekki það að kostnaðurinn hverfi. Í ríkiskerfinu hefði maður haldið að ekki skipti sköpum hvorum megin hryggjar hann lægi, þ.e. hjá ríkisskattstjóra eða Ríkisútvarpinu. Það kemur í sama stað niður. Hið opinbera kerfi ber á endanum þann kostnað. Segi ég þá skilið, frú forseti, við umsögn Félags fréttamanna um þetta frumvarp en bendi áhugasömum á að hún er í heild sinni birt sem fylgiskjal með nefndaráliti minni hluta nefndarinnar. Svo er í raun líka farið fleiri umsögnum, þ.e. umsögn BHM og BSRB og sömuleiðis lögfræðiáliti Láru V. Júlíusdóttur, og fleiri umsagnir eru þar birtar.

Varðandi sparnaðinn eða hagræðinguna sem á að nást að mati útvarpsstjóra og stjórnvalda með þeim breytingum sem hér eru gerðar þá er í fyrsta lagi talað um að hagræðingin sem fara á fram muni skila um 400 millj. kr. og eigi þá að dekka þann útgjaldaauka sem verður að mati stjórnendanna. Þessir fjármunir koma í fyrsta lagi í gegnum það að árlegt framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður fellt niður, en það er innan við 200 millj. kr. Reyndar má taka það fram hér að Ríkisútvarpið hefur aldrei greitt þær milljónir heldur hafa þær verið greiddar úr ríkissjóði og skuldfærðar á Ríkisútvarpið.

Reiknað er með um það bil 90 millj. kr. sparnaði varðandi nefskattinn og innheimtu hans sem, eins og ég sagði áðan, er ekki sparnaður heldur einungis tilfærsla á kostnaði frá innheimtudeild Ríkisútvarpsins og yfir til skattstjóranna í landinu. Síðan er gert ráð fyrir 6% rekstrarhagræðingu yfir heildina. Hvað skyldi hún nú fela í sér, þessi hagræðing upp á 6%? Við í menntamálanefnd höfum ekki séð neina áætlun um það á hvern hátt verði hagrætt. Það eina sem má segja að við sjáum í hendi okkar er að ekki verður ráðið í þau störf sem losna á næstunni þannig að það er greinilega verið að reyna að ná stórum hluta þessarar hagræðingar fram með fækkun á fólki. Ef við fækkum fólki innan stofnunarinnar þurfum við líka að vera með það alveg á hreinu hvaða störf þar eru að falla niður. Um leið verðum við að reyna að átta okkur á því hvernig það bitnar þá á dagskrárframboðinu og gæðum dagskrárinnar og gæðum yfir höfuð starfseminnar sem fram fer í stofnuninni. Það hefði verið hægur vandi, að mínu mati, að gera áætlun um þessa rekstrarhagræðingu og tíunda nákvæmlega hvað hún felur í sér. Menntamálanefnd óskaði eftir slíku frá útvarpsstjóra en fékk ekki.

Það var heldur ekki lögð fram nein áætlun um hvað þessi rekstrarhagræðing felur í sér við matsnefnd þá sem starfaði fram til 28. nóvember síðastliðinn við að gera stofnefnahagsreikning fyrir hið nýja félag. Okkur í menntamálanefnd barst í hendur á síðustu metrunum skýrsla þeirrar nefndar og sýnir hún á hvern hátt menn sjá fyrir sér að þetta nýja félag verði stofnað og hver fjárhagsgrunnur þess kemur til með að verða.

Það kemur hins vegar ekki skýrt fram í þeirri skýrslu hver fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er nákvæmlega í dag. Gera má ráð fyrir því að staða útvarpsins sé sú að það skuldi ríkissjóði um 420 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að ný hækkun á afnotagjöldunum, 8% hækkun frá því núna í október ef ég man rétt, muni dekka að stórum hluta eða öllu heldur greiða upp þann hala sem um ræðir og má vel vera að það reynist rétt. En hitt skulum við skoða og vera þess minnug, að þegar Ríkisútvarpið óskaði síðast eftir hækkun á afnotagjöldunum þá var ekki óskað eftir 8% hækkun heldur 16% hækkun. Hækkunin sem heimiluð var hér á stjórnarheimilinu var hins vegar 8%.

Þá er eðlilegt að maður spyrji: Hvaða starfsemi sér Ríkisútvarpið eða stjórnendur þess fyrir sér að skera þurfi niður af því sem menn töldu eðlilegt að Ríkisútvarpið annaðist fyrir bara örfáum mánuðum þegar farið var fram á 16% hækkunina? Ég sé ekki betur en hér reki hlutirnir sig hver á annars horn, við séum hér á mjög hálum ís varðandi fjárhagslega afkomu þessarar nýju stofnunar og ég sé ekki á hvern hátt aukið framboð af innlendu dagskrárefni á kjörtíma á að koma til með þeim fjárhagsramma sem er til staðar í dag. Ég er ansi hrædd um að það þurfi meira til. Það hefði verið hægt að leiða það í ljós nokkuð nákvæmlega ef menn hefðu sest yfir það og skoðað þá hluti rækilega. Það hefur aldrei staðið á okkur í minni hlutanum á Alþingi að fara með stjórnarmeirihlutanum í þá skoðun og í þá umræðu á hvern hátt megi sjá fyrir sér út í hörgul að fjármunir stofnunarinnar nýtist sem allra best. Við höfum í gegnum tíðina boðið fram krafta okkar í því. Við vildum á sínum tíma þegar við vorum að fjalla um fjölmiðla almennt að Ríkisútvarpið yrði jafnframt tekið til skoðunar og að sú nefnd sem þá starfaði, og skilaði af sér hinni merku skýrslu vorið 2005, fengi sömuleiðis það hlutverk að skoða málefni Ríkisútvarpsins ofan í kjölinn og á hvern hátt öflugt ríkisútvarp gæti starfað við hliðina á þeim fjölmiðlum sem starfa á einkamarkaði og koma til með að starfa eftir þessum almennu fjölmiðlalögum. Upp á það var ekki boðið, ekki frekar en nú í starfi menntamálanefndar, þar var heldur ekki boðið upp á það að við færum í alvarlega skoðun á hlutum eins og því t.d. hvað hagræðingaráætlunin felur í sér.

Það eru aðrir þættir í þessum stofnefnahagsreikningi sem vekja spurningar en eru nokkuð óljósir. Sem dæmi má nefna, og það kemur trúlega til frekari umfjöllunar þegar við tökum til skoðunar frumvarpið um Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er á dagskrá þingsins síðar í dag, að það er ljóst að framlagið til Sinfóníuhljómsveitar Íslands mun falla niður árið 2007 og það er athyglisvert að ekki er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið þurfi yfir höfuð að greiða fyrir það efni sem Sinfóníuhljómsveitin kemur til með, hingað til og hér eftir, að útvega hljóðvarpinu í formi tónleika sem hafa verið fluttir á fimmtudagskvöldum. Sagt er frá því í skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings að ekki sé gert ráð fyrir kostnaði vegna þjónustusamnings milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins. Er það í sjálfu sér óleyst mál og ekki vitað á þessu stigi hvort Sinfóníuhljómsveitin gerir sér grein fyrir því yfir höfuð að viðhafa eigi þetta ráðslag. Það háttaði svo til að þegar þetta mál kom upp á borð hjá okkur í menntamálanefnd að við höfðum lokið spurningum okkar og yfirheyrslum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við höfðum fengið framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar til okkar til skrafs og ráðagerða og spurt hana út úr en við höfðum ekki tækifæri til að spyrja um þetta atriði því að það var ekki fyrr en eftir að framkvæmdastjórinn var farinn sem það opnaðist fyrir okkur að þetta ráðslag væri á döfinni hjá stjórnvöldum.

Aðrir þættir sem skoða mætti nánar varðandi stofnefnahagsreikninginn og það mat sem kemur fram í honum eru atriði sem varða lóðir, t.d. Vatnsendalóðina sem Ríkisútvarpið hefur átt og haft til afnota. Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið, samkvæmt upplýsingum sem við fengum í nefndinni, að Vatnsendalóðin færist ekki til Ríkisútvarpsins ohf. heldur verði félaginu fenginn afnotaréttur af henni fyrst um sinn. Það er ákveðin óvissa um matsverð lóðanna í stofnefnahagsreikningnum sem ég held að hefði líka verið fullt tilefni til að skoða enn frekar í nefndinni. Við fengum hins vegar ekki stofnefnahagsreikninginn í hendur fyrr en á síðustu metrunum í umfjöllun okkar þannig að þar skortir talsvert á að við séum komin til botns. Eflaust má laga eða leiðrétta eitthvað af því þegar við fáum málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og það er sannarlega tilefni til að skoða þar ákveðna þætti nánar.

Varðandi þær fjárfestingar sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir þá eru þær eitt óvissuatriðið enn sem ég held að þingmenn verði að gera sér grein fyrir. Allur tækjabúnaður Ríkisútvarpsins er meira og minna úr sér genginn. Notuð er hliðræn tækni enn þá að langmestu leyti, kerfið er orðið gamalt og lúið og nú treysta menn á það, að mínu mati í nokkurri blindni, að kerfismálin leysist af sjálfu sér og það komi ekki til með að verða aukinn kostnaður eða fjárútlát fyrir Ríkisútvarpið að endurnýja eða tryggja örugga dreifingu um allt land, upp til fjalla, inn til dala og út á ystu mið. Menn ætla bara að láta skeika að sköpuðu og treysta því að Ríkisútvarpið fái inni með sína dreifingu hjá dreifingaraðilum sem verða þá trúlega einkafyrirtæki, hvort sem það verður Síminn, Digital Ísland, Orkuveita Reykjavíkur eða hverjir þeir aðilar verða. Það er ekki búið að leggja neitt mat á verð þessara þjónustuaðila. Ég held því að menn renni hér afar blint í sjóinn og að ekki séu öll kurl komin til grafar hvað þennan kostnað varðar. Mér segir svo hugur að hann komi til með að verða talsvert hærri en óskir útvarpsstjóra standa til og þá sömuleiðis óskir hæstv. menntamálaráðherra. Þar er enn einn óvissuþátturinn sem við sitjum uppi með.

Allt ber þetta að sama brunni, virðulegi forseti, málið er ekki fullskoðað, það er ekki fullburða enn þá, enda er hér um svo vafasama breytingu að ræða að það má segja að ekki verði séð fyrir endann á mörgum þáttum þess. Finnst mér fullmikil fífldirfska í gangi ef menn ætla bara að láta kylfu ráða kasti og sjá til með hvernig þetta gengur, eins og mér finnst blasa við í nokkuð mörgum þáttum þess. Fyrirhyggjan er ekki til staðar og það skortir talsvert á að menn hafi talað sig til botns í afar stórum þáttum.

Eðli málsins samkvæmt er rekstur svona miðils, sérstaklega í eins litlu og viðkvæmu málsamfélagi og við búum við, afar mikilvægur fyrir menningu þjóðarinnar. Það hefur verið talað fallega um Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, í þessum ræðustóli og úti í samfélaginu í gegnum árin og áratugina og menn hafa sterkar og mjög sérstakar taugar til Ríkisútvarpsins. Ég tel hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þá veru sem við höfum fjallað um vera þeirrar náttúru að þær ógni þessum tilfinningum fólks til Ríkisútvarpsins, þær ógna því trausti sem almenningur ber til Ríkisútvarpsins í dag, en það hefur æ ofan í æ komið fram í könnunum að bæði fréttastofa Ríkisútvarpsins og stofnunin sem slík nýtur gríðarlega mikils trausts þjóðarinnar. Það fer um og yfir 70% hlutfallið sem sagt er treysta þessari stofnun, bæði hvað varðar lýðræðislega umfjöllun frétta og fréttaflutning. Velvildin er líka gríðarlega mikil og ég tel að henni sé ógnað. Almenningur og þjóðin á betra skilið en það sem hér er lagt til. Allt er meira og minna reist á sandi og mér finnst lítill trúverðugleiki í þeim áformum sem eru til staðar, eins og komið hefur fram í máli mínu. Mér finnst það glapræði að stefna í voða trúverðugleika og trausti almennings á þessari rótgrónu stofnun. Við tókum eftir því að mat starfsfólksins sjálfs innan stofnunarinnar á því hvernig stofnuninni hefur tekist að rækja eða uppfylla skyldur sínar varðandi almannaþjónustu, er að það hafi tekist samtímis því að vinsældir stofnunarinnar og dagskrárinnar hafi verið talsvert miklar. Það er mat starfsfólksins að staða miðilsins sé sterk og það er mikill vilji til þess að sú staða miðilsins og stofnunarinnar verði varðveitt, en í mínum huga er henni ógnað með þeim áformum sem hér eru til staðar.

Við erum öll sammála um að það eigi að tryggja meiri innlenda dagskrárgerð, það eigi að tryggja vandað erlent efni og ekki bara frá einu málasvæði, eins og nú er í of ríkum mæli, heldur eigum við að geta boðið upp á fjölþjóðlega erlenda dagskrá í okkar ríkisútvarpi og sjónvarpi. Við þurfum að innleiða hina stafrænu tækni, það er komið að því og gott betur. Við eigum að leyfa okkur þann munað að taka umræðu um fleiri rásir, bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Við eigum að ræða það málefnalega hvaða möguleikar eru á því og hver rökin eru fyrir því að hafa tvær rásir í hljóðvarpi og mögulega tvær rásir fyrir sjónvarp. Við eigum líka að fara í gegnum þá umræðu á hvern hátt við sjáum hina stafrænu tækni taka við af hinni hliðrænu.

Við þurfum líka að sjá fram úr því að Ríkisútvarpið geti rækt skyldur sínar við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð alla. Við megum ekki gleyma því að taka þá umræðu. Við höfum kannski einbeitt okkur um of að rekstrarforminu í þessari umræðu, það fer gríðarlega mikil orka hjá okkur sem erum að reyna að leiða stjórnvöldum fyrir sjónir hvaða vitleysu þau eru að gera með því að tala um þetta rekstrarform og einkavæðinguna sem því fylgir. Við höfum fengið færri tækifæri til að ræða um hina efnislegu þætti, eins og hið menningarlega hlutverk og hvernig þessum miðli er gert að sjá þjóðinni fyrir öflugum fréttaflutningi eða að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir.

Umræðan er takmörkuð og þess vegna hef ég stiklað hér á stóru en hefði sannarlega gjarnan viljað fara dýpra ofan í ýmsa hluti. Ég lít svo á að við getum átt eftir að kafa talsvert dýpra í þá umræðu en við gerum núna þar sem við eigum eftir að fá málið á ný til nefndar. Sömuleiðis geri ég ráð fyrir að 3. umr. verði lengri og umfangsmeiri og kannski getum við þá farið víðar yfir sviðið og dýpra ofan í ákveðna þætti sem ég hef leyft mér að sleppa hér.

Frú forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um einkavæðingu að ræða hvernig sem á málið er litið. Aðeins það að Ríkisútvarpið verður með þessari breytingu tekið út úr hinum opinbera rétti og sett inn í einkarétt felur það í sér, eitt og sér, að um einkavæðingu er að ræða. Þessi breyting er einkaréttarlegs eðlis, einkavæðing er í mínum huga hugtak sem segir miklu meira en hlutafélagavæðing, ég vil tala tæpitungulaust og tala því hér um einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem nú stendur fyrir dyrum.

Það er ömurlegt til þess að vita hvernig Framsóknarflokkurinn hefur lyppast niður í þessu máli og hvert hann hefur látið draga sig. Það örlaði á andstöðu Framsóknarflokksins við málið um daginn og við héldum kannski að flokkurinn væri eitthvað að reisa sig en það stóð ekki lengur en dagpart eða tvo, því miður. Það verður fróðlegt að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins verja afstöðu síns flokks í umræðunum hér. Við komum til með að leggja hlustir við og sömuleiðis almenningur og auðvitað mun fólk, sem farið er að átta sig á að kosningar nálgast, vera vakandi fyrir þeim sjónarmiðum sem hér er talað fyrir. Ég er hrædd um að Framsóknarflokkurinn eigi eftir að fara nokkuð flatt á þessum viðsnúningi sem ég vil meina að hafi orðið í sjónarmiðum flokksins í gegnum þetta erfiða og þunga mál. Það á eftir að verða honum erfitt og er kannski nú þegar farið að bitna á honum í ljósi þess hvernig skoðanakannanir koma út þessa dagana þegar fylgi Framsóknarflokksins er kannað.

Frú forseti. Ég læt hér lokið máli mínu til að reyna að greiða fyrir umræðum og þingstörfum þó svo að mér liggi margt fleira á hjarta varðandi þetta mál.