133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:40]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um að pólitísk ítök í Ríkisútvarpinu hafi verið allt of mikil, ekki bara undanfarin ár, heldur í mjög mörg ár. Það hefur ekki farið fram hjá neinum.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það að útvarpsráð verði ekki lengur með puttana í dagskrárgerð hafi mikið að segja. Ég held að það sé rétt að ganga ekki lengra að þessu sinni.

Hins vegar er ljóst að Ríkisútvarpið mun verða undir smásjá eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar og fylgst með því hvernig það þróast. Ég held að okkar verkefni sé að fylgjast með því hvernig þetta verður. Ég útiloka ekki að, ef menn sjá merki um pólitísk ítök áfram sem birtist þá í störfum Ríkisútvarpsins, þá verði ástæða til að fara aðrar leiðir.

En ég tel hins vegar nógu langt gengið að þessu sinni. Ég hef trú á því að það að útvarpsstjóri ber ábyrgð á dagskrárgerð en ekki hið pólitískt skipaða útvarpsráð muni hafa mikið að segja. Einnig ræður útvarpsstjóri aðra starfsmenn. Áður komu t.d. tillögur frá ráðherra um framkvæmdastjóra deilda. Eins og lögin eru í dag gefur útvarpsráð umsögn um starfsfólk við dagskrárgerð. Þetta mun breytast núna. Ég tel það stórt skref því að það hefur ekki verið Ríkisútvarpinu til góðs að hafa skipulagið eins og verið hefur.