133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

flutningur verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta.

186. mál
[10:29]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nefndin hefur tekið málið til meðferðar, fengið til sín gesti og allnokkuð af umsögnum. Í frumvarpinu er lagt til að tiltekin verkefni sem dómsmálaráðuneytið hefur til þessa haft með höndum verði flutt til smærri sýslumannsembætta víða um landið og í nefndaráliti er tilgreint hvaða verkefni þar kann einkum að vera um að ræða. Um er að ræða ákvarðanir sem eiga að hafa þann tilgang að styrkja sýslumannsembættin auk þess að gera afgreiðslu mála fljótlegri og skilvirkari. Með þessu er líka ætlunin að ráðuneytið verði betur í stakk búið til að sinna öðrum verkefnum.

Nefndin áréttar að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ákvarðanir sýslumanna í þeim verkefnum sem ætlunin er að flytja verða samkvæmt almennum reglum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins og nefndin álítur því að ákvæði frumvarpsins geti einnig stuðlað að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni.

Nefndin gerir ákveðnar breytingartillögur við frumvarpið. Hún leggur til að við frumvarpið verði bætt kafla sem breytir 4. og 5. tölul. 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu. Þar er nú gert ráð fyrir því að almannaskráning byggist m.a. á gögnum dómsmálaráðuneytis um ættleiðingarleyfi og að sýslumenn gefi Þjóðskrá skýrslur um hjónavígslur, leyfi til skilnaðar að borði og sæng og leyfi til lögskilnaðar. Nefndin leggur annars vegar til að við ákvæðið verði bætt áskilnaði um að sýslumenn skuli veita Þjóðskrá skýrslur og gögn um ættleiðingarleyfi og að ákvæði um að dómsmálaráðuneyti fari með gögn um ættleiðingarleyfi verði þar af leiðandi fellt niður. Auk þess leggur nefndin til að inn í ákvæðið verði bætt áskilnaði um að sýslumenn skili til Þjóðskrár gögnum um staðfestar samvistir sem hafa að sjálfsögðu sama vægi við almannaskráningu og upplýsingar um önnur þau tilvik sem talin eru upp í greininni.

Nefndin leggur einnig til breytingu á 24. gr. frumvarpsins, en þar er gert ráð fyrir að leyfi lögreglustjóra þurfi til að halda hlutaveltu sem er óbreytt frá núverandi fyrirkomulagi. Með hliðsjón af þeim breytingum á skipan lögreglumála sem taka gildi um næstu áramót, samanber lög nr. 46/2006, sem m.a. fela það í sér að ekki fara allir sýslumenn með lögreglustjórn, telur nefndin rétt að færa þessa leyfisveitingu frá lögreglustjórum til sýslumanna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Guðjón Ólafur Jónsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita Bjarni Benediktsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Kjartan Ólafsson og Sigurjón Þórðarson.