133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[11:13]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á var spurt um þessi atriði í hv. félagsmálanefnd. Þau svör sem fengust varðandi þetta mál voru í rauninni þau að þegar unnið var að þessari tilskipun hefði verið alveg ljóst að menn ákváðu að hafa allar lágmarkskröfur í þessu frumvarpi. Við vitum að það er ekki mikil hefð fyrir þessu máli hér á landi, þ.e. upplýsingum og samráði, og menn vildu meina að þetta þyrfti tíma og þess vegna er þessi aðlögunarmöguleiki innan tilskipunarinnar.

Það er kannski ekki síst þess vegna sem við í hv. félagsmálanefnd leggjum það til og skýrum frá því í nefndaráliti okkar að menn noti þetta tækifæri — hér erum við komin með þennan grunn — til að semja um þetta og taka þetta upp í kjarasamningum þannig að þessi hefð komist á. Síðan er það auðvitað þannig í hinum opinbera geira sem hv. þm. Ögmundur Jónasson þekkir nú manna best hér og miklu betur en ég nokkurn tíma að þar gilda lög um stjórnsýslu og upplýsingaskyldu og ná vonandi til einhverra þátta.

Ég get hins vegar alveg fallist á sjónarmið hv. þingmanns þó að við tökum ekki tillit til þeirra í breytingartillögum við þetta mál. Við töldum sem svo að þetta væri sá grunnur sem við þyrftum að byrja á en ég er þess fullviss að það líða ekkert mörg ár áður en þetta mál kemur aftur hingað inn á hið háa Alþingi þegar búið verður að láta á það reyna hvort menn séu tilbúnir til að taka tillit til þeirra í kjarasamningum, sem ég vona að verði.