133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur fylgst með 1. umr. um þetta mál þá gat ég þess að ég væri á móti þessari stofnun sem slíkri en ég væri hlynntur þessari breytingu. Ég held að menn hafi skilið það.

En varðandi sameign og séreign, það er einmitt það sem hv. þingmaður nefndi sem er kosturinn við þetta, svo ég lýsi því nú, fyrir utan það að sveitarstjórnarmennirnir vildu þetta. Það að þetta skuli bókast sem eign hjá viðkomandi sveitarfélagi býr til kröfu um að þessi eign skili arði, sem gerir hins vegar líka kröfur til þess að rekstur sjóðsins sé í lágmarki, þ.e. kostnaðurinn, að hann sé vel rekinn og skipulega og gefi mikinn arð. Það er einmitt þess vegna sem höfum eignarrétt í stjórnarskránni, frú forseti, einmitt vegna þess að þegar einhver á eignina gerir hann kröfu til arðs, en ef þetta er einhver óljós sameign, að maður tali nú ekki um sjálfseignarform, gerir enginn kröfu um arð. Þá getur reksturinn verið alveg eins og mönnum dettur í hug, fyrir utan það að ábyrgðin er orðin miklu skýrari.

Hv. þingmaður spurði af hverju Reykjavíkurborg fái svona mikið. Reykjavíkurborg hefur borið langmestu ábyrgðina á þessu af því að hún er styrkust. Alla tíð hefur Reykjavík borið sameiginlega ábyrgð á öllum sjóðnum og er eina sveitarfélagið sem hefði getað borgað veruleg áföll ef þau hefðu komið upp.

Varðandi það að Orkuveita Reykjavíkur kaupi hlutabréfin. Ég stakk upp á því við 1. umr. að Lína.Net keypti þarna eða Rækjueldi hf. og annað sem Orkuveitan stofnaði þegar R-listinn var við völd í Reykjavík. Þannig gætu mörg dótturfyrirtæki Orkuveitunnar keypt í félaginu og hvert átt 15% og þá væri sá vandi leystur.

En að ætlast til þess að sveitarfélagamenn séu svo vitlausir að þeir selji sinn hlut á lágu verði, þá geri ég ekki ráð fyrir því. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir að þeir séu mjög klókir (Gripið fram í.) og þeir muni alls ekki selja eða selja á mjög háu verði.