133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

ummæli þingmanns um þinghlé.

[13:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú er ég óbreyttur þingmaður á þinginu og eðlilega ekki með í ráðagerðum æðstu manna um það hvernig framvindan er hér á fundum. Mér skildist þó í gær að náðst hefði samkomulag um þingfrestun á morgun, nokkurn veginn í samræmi við starfsáætlun þingsins, og að þetta hefði verið gert með hagsmuni þings og þjóðar væntanlega fyrir augum. Þess vegna kom mér á óvart að heyra það haft eftir hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni í hádegisfréttum að þetta væri ekki ástæðan heldur væri ástæðan fyrir þessu sú að einhverjir þingmenn væru að fara í skemmtiferð sem svo var nefnd. Nefndir voru nokkrir þingmenn. Ég heyrði þetta nú ekki sjálfur heldur var mér sagt af þessu. Ég held að í þeim hópi hafi verið hv. þm. Jón Kristjánsson úr Framsóknarflokki og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir úr Framsóknarflokki eða einhverjir slíkir og kannski eru fleiri skemmtiferðir hér uppi. Ég sé til dæmis að það vantar hér í ráðherrastóla nokkra menn sem ég hélt að væru í opinberum erindagjörðum en eru kannski í skemmtiferðum.

Mig langar að spyrja, forseti, hvort þetta sé rétt og hvort það sé þannig að forseti hagi þingstörfum og þingfrestun og þinglokum eftir einstökum skemmtiferðalögum einstakra þingmanna eða þingmannahópa.