133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:48]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Forseti. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa komið fram upplýsingar um hleranir á einstaklingum, upplýsingar sem lýsa öðrum raunveruleika og tíma en við lifum í dag, sem betur fer. Ég eins og aðrir hef fylgst með þeirri umræðu og upplýsingum sem komið hafa fram enda kenndi téður sagnfræðingur og höfundur margumræddrar bókar mér í 6. bekk MR á sínum tíma. Þess vegna hefur maður kannski sérstaklega fylgst með honum. Það sem skiptir máli í mínum huga er auðvitað að við fáum öll spilin upp á borðið og eigum heiðarlega og málefnalega umræðu um málið.

Þess vegna verð ég að segja, frú forseti, að ræða hæstv. fjármálaráðherra áðan kom mér mjög á óvart. Mér fannst koma fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann nálgaðist málið út frá því að við ættum einmitt að ræða málið heiðarlega og málefnalega og ekki með því að ráðast sífellt að á aðra stjórnmálaflokka.

Ég velti fyrir mér hvað hæstv. fjármálaráðherra gekk hreinlega til og að hverju hann var að ýja þegar hann dró fram nýjar upplýsingar, eftir því sem ég best veit, um fyrrverandi forsætisráðherra Steingrím Hermannsson.

Mér finnst það málinu ekki til framdráttar heldur eigum við að nálgast það úr frá málefnalegri, heiðarlegri og opinskárri umræðu þar sem við hljótum öll að þurfa að takast á við þetta.

Í umræðunni hefur öllu verið hrært saman, hvort sem um er að ræða innri varnir landsins, hleranir sem heimilaðar hafa verið af dómstólum eða hleranir sem hljóta að vera utan ramma laganna. Við vitum að nefnd Páls Hreinssonar er að störfum og það er mikilvægt að störfum hennar verði hraðað og hún skili okkur vinnu sinni.

Ríkislögreglustjóri hefur jafnframt falið sýslumanninum á Akranesi að vinna að rannsókn. Sú leið sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stingur upp á í umræðunni finnst mér góðra gjalda verð. Ég tel þó að við verðum að bíða niðurstaðna fyrrnefndrar nefndar Páls Hreinssonar áður en við stígum næstu skref í málinu. En það sem skiptir öllu máli er að rasa ekki að neinu. Málið fer ekki frá okkur. Við þurfum að vanda okkur við þetta eins og annað. Við eigum að lokum að stíga skrefið til fulls. (Forseti hringir.) Þá verða menn að geta rætt um þetta opinskátt og málefnalega en ekki fara í þær ásakanir sem mér finnast koma fram í umræðunni.