133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[15:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. (Gripið fram í: Þú verður nú að þakka fyrir þig.) Ég ætlaði að vera hér hálfreiður og skamma hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson. En ég er eiginlega ekki í skapi til þess lengur og hlýt að segja bara eins og forsetarnir gera hér hátíðlega, að þakka fyrir hlý orð og góðar óskir.

Ég vil þó gera athugasemdir við það að menn tali með þessum hætti um störf sín hér. Þegar þingnefnd, utanríkismálanefnd, fer í opinbera ferð til að hitta sambærilegar nefndir í vina- og grannríkjum okkar er það auðvitað vinnuferð, eða líta framsóknarmenn svo á að öll alþjóðasamskipti séu skemmtiferðir? Er ekki hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson nýkominn úr hálfs mánaðar vellystingum í New York á kostnað skattborgaranna til að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna? Var það skemmtiferð? (Gripið fram í: Mjög skemmtileg.) Var hann ekki í vinnu þar? Var hann ekki að sinna skyldum sínum? (Gripið fram í: Það var skemmtileg …) Hið sama á við um það þegar menn tala þannig eins og að þingmenn geri ekkert og liggi á meltunni nema bara þegar hér standa yfir þingfundir. Hvers konar tal er þetta? Hefur það ekki gildi að menn fari út í kjördæmin, sinni kjósendum sínum eða þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem sífellt þyngjast á herðum okkar litla þjóðþings, að taka þátt í allri þeirri fjölþættu alþjóðasamvinnu sem við reynum að rækta þó fá séum?

Það er ekki til nokkurs annars en að grafa undan okkur sjálfum og virðingu þessarar stofnunar þegar menn tala með þessum hætti. Það er voðalega ódýrt að ætla að slá sér upp á kostnað félaga sinna með þessum hætti, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson. Maður hlýtur að fara að velta því fyrir sér að ekki geti þingmaðurinn hugað að áframhaldandi þingmennsku. Hann hlýtur að hafa meiri metnað en þann að vinna á svona stofnun ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur. Kannski er í gegnum þessi ummæli þingmannsins Guðjóns Ólafs Jónssonar hægt að lesa þau tíðindi að hann hyggi ekki á frekari þingmennsku. Það verður þá að hafa það og sumum finnst kannski bættur skaðinn.