133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[18:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna hefur verið mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu sem lúta fyrst og fremst að breytingum á stöðu Hólaskóla. Eins og formaður hv. landbúnaðarnefndar gerði grein fyrir í nefndaráliti þá stend ég að þessu nefndaráliti efnislega með þeim fyrirvara að ég tel að ekki eigi að segja upp starfsfólki við skólann.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur er hér fyrst og fremst um formbreytingu að ræða. Í rauninni er verið að setja lög um þá starfsemi sem þegar er í gangi og gefa henni tækifæri til að þróast áfram, í sjálfu sér er því ekki verið að búa til nýja stofnun. Meira að segja er það svo að nafnið á stofnuninni sem hér er verið að tala um, Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal – Háskólinn á Hólum er nákvæmlega sama nafn og hún hefur gengið undir í dag. Það er í sjálfu sér mjög lofsvert að slík löggjöf skuli vera sett sem hér er verið að setja þótt hún sé fyrst og fremst staðfesting á þeirri löggjöf sem samþykkt var á Alþingi 1999 með lögum um búnaðarfræðslu sem þá var samþykkt en í 34. gr. þeirra laga var einmitt kveðið á um að heimilt væri að stofna til kennslu eða náms á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins á afmörkuðum sviðum með samþykki landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn búfræðsluráðs.

Með lögunum frá 1999 var sú starfsemi í rauninni heimiluð, þ.e. að tekin væri upp kennsla og starf á háskólastigi. Í ráðningarsamningum þess fólks sem uppfyllt hefur þau skilyrði sem sett voru hefur verið kveðið á um að það fengi ráðningar og laun í samræmi við menntun og kröfur sem gerðar eru til þeirra við kennslu á háskólastigi. Sú breyting sem hér er verið að gera er því í sjálfu sér fyrst og fremst staðfesting á því.

Um leið og ég fagna því að verið er að festa þetta háskólanám í lög þá hef ég flutt breytingartillögu, frú forseti, þar sem lagt er til að fallið verði frá því að segja fólkinu upp, fallið verði frá því að leggja stofnunina niður og fallið verði frá því að setja stofnunina að ástæðulausu í uppnám, því þó að verið sé að staðfesta formlega í lögum að stofnunin megi heita háskóli þá sé ástæðulaust og rangt að segja starfsfólkinu upp. Ég mun koma nánar að því í ræðu minni, frú forseti, en breytingartillaga mín er við ákvæði til bráðabirgða þar sem nú er sagt að segja eigi fólkinu upp. Mín tillaga er sú að skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk Hólaskóla skuli halda stöðum sínum en þeir einir geta þó orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Hólaskóla sem uppfylla kröfur 34. gr. laganna og að skólameistari Hólaskóla verði rektor Hólaskóla – Háskólans á Hólum. Þetta er mín breytingartillaga.

Ég vil vitna til þess að 1999 voru gerðar mjög gagngerar breytingar á búnaðarfræðslunni. Þá voru sett lög um menntastofnanir landbúnaðarins, m.a. um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Eldri lög frá 1978 hljóðuðu upp á Bændaskólann á Hvanneyri sem hafði heimild til að reka svokallaða framhaldsdeild en með lögum frá 1999 var þeim breytt þannig að Bændaháskólanum á Hvanneyri var breytt í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hins vegar var Bændaskólanum á Hólum breytt í Hólaskóla en Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi hélt áfram sínu nafni.

Í lögunum frá 1999 voru gerðar grundvallarbreytingar á lagaumgerð búfræðslunámsins en engu að síður var lögð áhersla á að ekki yrði hróflað við stöðu starfsfólksins og var þó verið að gera miklu meiri breytingar en nú er. Nafni Bændaskólans á Hvanneyri var breytt í Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Í þeim lögum segir í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk Bændaskólans á Hvanneyri, Bændaskólans á Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum skal halda stöðum sínum. Þeir einir geta þó orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri sem uppfylla kröfur 7. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla.“

Þarna var þess einmitt vandlega gætt að ekki væri verið að hrófla við réttarsambandi og ráðningarsambandi stofnunar og starfsfólks að ástæðulausu. Þess vegna er mér með öllu óskiljanlegt hvers vegna lagt er til í þessu frumvarpi að öllu starfsfólki á Hólum verði sagt upp. Það hljóta að vera einhver annarleg sjónarmið þar að baki ef þetta er keyrt áfram með þeim hætti sem hér er, eins og það er mikið fagnaðarefni að Hólaskóli skuli fá rétt til að kalla sig háskóla.

Má ég minna á í þessu sambandi að nýlega hefur verið dreift frumvarpi á Alþingi um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sem þýðir að Kennaraháskólinn er látinn ganga inn í Háskóla Íslands og því í raun lagður niður. Við þær miklu breytingar sem þarna er verið að gera er í 3. gr. þess frumvarps skýrt kveðið á um störf starfsmanna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara, sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands, yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands.“

Þarna er því lögð áhersla á að ekki sé gert ráðningarrof á starfsfólki Kennaraháskóla Íslands þó að hann sé í raun lagður niður og færður inn í Háskóla Íslands. Enda er það svo, frú forseti, að öryggi stofnunar og starfsfólks, gagnkvæmt öryggi þeirra í millum er eitt hið dýrmætasta í rekstri slíkra stofnana. Ég er með umsögn um frumvarpið frá Hólamannafélaginu, Hollvinasamtökum Hólaskóla, sem eru samtök þeirra sem annaðhvort hafa verið nemendur eða starfað við Hólaskóla á undanförnum árum og áratugum og þar segir, með leyfi forseta:

„Hólamannafélagið vill koma eftirfarandi á framfæri vegna ofangreinds frumvarps:

1. Hólamannafélagið fagnar þessu frumvarpi í heild sinni og telur það til mikilla bóta fyrir skólastarf á Hólum og í raun aðlögun að því starfi sem þegar er unnið þar.

2. Hólamannafélagið hefur efasemdir um að það sé rétt aðferðafræði að segja núverandi starfsmönnum upp störfum og endurráða þá síðan. Samþykkt frumvarpsins felur í fyrstunni ekki í sér breytingar á störfum núverandi starfsmanna heldur munu breytingar taka tíma og komast smám saman á. Því fela uppsagnir starfsmanna ekki annað í sér en að skapa þeim óöryggi og óþægindi. Hólamannafélagið leggur því til að í greininni Ákvæði til bráðabirgða verði setningarnar „Störf hjá Hólaskóla eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki stofnunarinnar skulu boðin störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum“ felldar niður en í þeirra stað komi setningin: „Störf Hólaskóla verða við gildistöku laga þessara störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.“

Hollvinasamtök Hólaskóla eru ekki að koma þessu á framfæri að ástæðulausu. Allir sem komu á fund nefndarinnar, nema fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, ég minnist ekki að neins annars, töldu enga ástæðu til þess að vera að breyta ráðningarformi fólks og voru reyndar hissa á því að það væri í lögunum með þeim hætti, þannig að mér verður þetta enn óskiljanlegra.

Sama segir í umsögn BSRB um frumvarpið, með leyfi forseta:

„BSRB telur að þrátt fyrir að verið sé að gera Hólaskóla að háskóla sé ekki um svo mikla breytingu að ræða að til þess þurfi að koma að leggja niður störf og segja upp starfsfólki. Með þessari breytingu er verið að setja réttindi starfsmanna og starfsfólk stofnunarinnar í óvissu. Þrátt fyrir að í bráðabirgðaákvæðinu segi að starfsfólki stofnunarinnar skuli boðin störf hjá hinum nýja háskóla segir þar ekkert um hvernig réttindi þeirra, áunnin eða til framtíðar verði tryggð.“

Samtök stéttarfélaganna benda á þetta. Það er hins vegar alveg hárrétt að með því að segja öllu starfsfólkinu upp á starfsfólkið rétt á biðlaunum. Það á rétt á starfslokasamningum samkvæmt lögum þar um. Það er alveg rétt. En er það í þann feril sem við viljum láta þetta mál fara, að hver einstakur starfsmaður á Hólum eigi að fara að velta því fyrir sér hvort það sé hagkvæmara eða öruggara fyrir sig að skoða hvort hann eigi að skoða biðlaunarétt sinn þegar ráðningarsambandið hefur verið rofið? Því það hlýtur hver og einn starfsmaður að fara að hugsa út frá sjálfum sér hvað það varðar.

Frú forseti. Mér finnst þessi aðgerð með ólíkindum og maður fer að velta því hreinlega fyrir sér hvaða tilfinningar liggja þarna að baki. Það kom fram í nefndinni hjá fulltrúum ráðuneytisins að þeir vörðu þessa tillögu sína með því að það gæfi svigrúm til að stokka upp ráðningarform fólks. Vissulega gefur það tækifæri til að stokka upp ráðningarform fólks, en er það það sem við viljum gera á svona stað? Þegar ráðningarsamningur er rofinn við fólk á svona stað þá er í rauninni verið að rjúfa ráðningarsamning við samfélag en ekki fólk. Það eru bara tvö ár síðan við vorum með lagasetningu um Landbúnaðarháskóla Íslands og þá var hart sótt einmitt að sama ráðherra og nú er að leggja þetta frumvarp fram, að Hólaskóli yrði gerður að deild í Landbúnaðarháskóla Íslands. Það var bara með hörku að tókst að koma í veg fyrir að Hólaskóli yrði þá lagður niður af núverandi landbúnaðarráðherra og gerður að deild í Landbúnaðarháskóla Íslands.

(Forseti (SP): Forseti vill inna hv. þingmann eftir því hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni, hvort hann vilji fresta ræðunni eða ljúka henni núna.)

Virðulegi frú forseti. Ég held að ég fresti seinni hluta ræðunnar.

(Forseti (SP): Þá mun forseti fresta fundi en fundi verður fram haldið kl. 8 og þá verður þessu máli fram haldið.)