133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:13]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir þessi síðustu orð. Mikilvægt framfaraspor. Ég er algerlega sammála honum. Þetta er mikið framfaraspor sem hér er stigið gagnvart þessari skólastofnun sem mun skapa henni mörg ný tækifæri og ekki síður því starfsfólki sem þar er og því nýja frelsi sem Hólaskóli fær í gegnum þessa lagasetningu. Ég þakka þau orð.

En vinstri grænir mega líka vita það að þeir eru ekki bara á móti málum. Enginn flokkur í þessu þingi verður jafnsmámunasamur, -kjökrandi og -viðkvæmur. Ef einhver leyfir sér að skamma þá eða segja eitthvað að gamni sínu um þennan flokk fara þeir að kveinka sér, mennirnir sem hér hafa stærstu orðin, tala mest og láta verst í þinginu. (ÖS: Ekki talaði …)

Vissulega er ég hissa á þessari viðkvæmni í mönnum sem hafa það að íþrótt sinni og daglegri iðju að skamma aðra og gera það oft af miklum myndugleik. Þeir verða auðvitað að eiga það að flokkur þeirra er sérstakur eins og ég hef hér greint frá og því verða Íslendingar að átta sig á að þessi örsmái fimm manna flokkur á sér sérstaka sögu sem er mörg þúsund ára gömul eins og ég hef hér rakið.