133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:07]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ýmis einkaframtök, eins og t.d. Latibær, hafi náð miklu meiri árangri en við þingmenn í því að reyna að stýra neyslu fullorðins fólks með verðlagningu. Miklu meiri. Það sýnir bara hvað áhrifamáttur frjáls framtaks og upplýsingar getur verið mikill.

En varðandi hættulegar vörur. Þá vildi ég nú heldur byrja á fitunni, frú forseti, en sykrinum. Því hert fita í lambakjöti eða lambakjöt og aðrar feitar vörur geta líka verið mjög skaðlegar. Ég veit ekki hvar við ætlum að enda.

Að bera saman sykur og tóbak. Í heilbrigðis- og trygginganefnd var okkur sagt að tóbak væri stórhættulegt. (Gripið fram í: Það er sykurinn líka.) Hann er ekki bráðdrepandi. (Gripið fram í.) Sykur í litlum mæli skaðar ekki neitt, eða mér er ekki kunnugt um það. Það er ólíku saman að jafna, hættulegum efnum eins og sígarettureyk og sykri. Ég skil ekki í hv. þingmanni að vera að bera þetta saman.

Sykur er bara svipaður og fita og margur annar matur sem menn neyta í óhófi. Fita er góð í litlum mæli. Sykur er góður í litlum mæli. Gos er gott í litlum mæli. Einu sinni í viku eða eitthvað slíkt eða enn þá sjaldnar. Þá er þetta bara ágætismatvara. Það er ekki fyrr en þessa er neytt í óhófi sem það verður hættulegt.