133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:34]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í andvari mínu er með frumvarpinu farin viss millileið. Ég sagði að þarna tækjust annars vegar á sjónarmið um einfalt og gegnsætt skattkerfi og hins vegar þau sjónarmið að gera þyrfti skýran greinarmun á þessum vörum. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera þessa málamiðlun og fara milliveginn.

Mér fannst mikilvægt að fá fram í umræðunni þá skýru afstöðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að hann og Samfylkingin telja að fella eigi alfarið niður öll vörugjöld, þar með talið á þeim vöruflokkum sem ríkisstjórnin skilur eftir, þ.e. sykri og sætindum. Það er greinilega himinn og haf á milli stefnu þeirra stjórnarandstöðuflokka sem hér um ræðir, annars vegar Vinstri grænna og hins vegar Samfylkingarinnar.