133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan hefur sameinast um þessa tillögu en hún felur það í sér að kaupendur almenningsvagna sitji við sama borð og kaupendur annarra hópferðabifreiða og njóti endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp þessa efnis sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður flutti, ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en að þessari tillögu stendur stjórnarandstaðan öll enda hafa fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkunum innan stjórnarandstöðunnar talað fyrir þessu máli.