133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hef notað þá samlíkingu um umræðuna að allir vildu Lilju kveðið hafa þegar umræða hefur verið um þetta frumvarp. Ég veit ekki hvort Eysteinn munkur lifði það að allir vildu hafa kveðið kvæðið hans en hafi hann lifað það hlýtur honum að hafa liðið svipað og mér hérna inni, að vera nokkuð sáttur með þá samstöðu sem fæst um þetta ágæta frumvarp. (ÖJ: Nema fólkið.) (Gripið fram í: Gott hjá þér.) Þegar búið verður að samþykkja þetta frumvarp munu ríkisstjórnarflokkarnir hafa uppfyllt öll loforð sín um skattalækkanir. Það verður um að ræða skattalækkanir á ársgrundvelli upp á hátt í 40 milljarða. Þetta er langsamlega stærsta skattalækkunaraðgerð sem farið hefur verið í hér á landi, og þetta frumvarp sérstaklega er langsamlega stærsta aðgerð sem farið hefur verið í til að lækka matvöruverð á Íslandi.

Miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram vænti ég þess að ljósataflan verði algjörlega græn í þessari atkvæðagreiðslu.